Stytting vinnutíma hjá opinberum starfsmönnum

Í kjarasamningum opinberra starfsmanna sem samþykktir voru á vormánuðum 2020 náðist tímamótasamkomulag um styttingu vinnutímans. Breytingar vegna vaktavinnufólks taka gildi 1. maí 2021 en breytingar hjá dagvinnufólki eiga að taka gildi frá 1. janúar 2021. Varðandi dagvinnuna er heimilt að stytta vinnuvikuna um allt að 4 klukkustundir á viku eða úr 40 í 36 virkar stundir. Lágmarksstytting er þó 13 mínútur á dag, eða 65 mínútur á viku. Vinnuvikan fyrir fólk í vaktavinnu styttist úr 40 stundum í 36 virkar stundir á viku, fyrir fullt starf. Frekari stytting í allt að 32 stundir er möguleg og grundvallast á vægi vinnustunda. 

Á fundum sem búið er að halda með um 60 trúnaðarmönnum félagins í Opinberu deildinni hefur Björn formaður m.a. fjallað um breytingar á vinnutíma. Til þess hefur hann m.a. notað kynningarvefinn betrivinnutími.is. sem Kjara- og mannauðssýsla ríkisins opnaði í kjölfar samninganna sl. vor. Á kynningarvefnum er farið yfir mögulegar útfærslur á styttingu vinnutíma dagvinnufólks og þær breytingar sem verða á vinnufyrirkomulagi vaktavinnufólks. Á vefnum er einnig leitast við að svara helstu spurningum og veita leiðbeiningar um framkvæmd breytinganna sem eiga að leiða til betri vinnutíma. Þá er einnig að finna svokallaðan vaktareikni sem hægt er að nota til þess að fá betri mynd af því hvaða breytingar nýtt vinnufyrirkomulag getur haft á kjör vaktavinnufólks. 

Á fundunum hefur líka komið fram hjá Birni að breytingar á vinnufyrirkomulagi og fækkun vinnustunda krefst undirbúnings og skipulagningar hjá starfsfólki og stjórnendum en til þess á að skipa í vinnutímanefnd á hverjum stað fyrir sig. Hann telur eðlilegt að trúnaðarmenn taki þátt í vinnu þessara nefnda. Hann sagði að þetta ætti að vera samvinna, einn frá hverju félagi á viðkomandi stað eiga að vera í nefndinni, yfirmaður á ekki að ráða þessu. 

Undirbúningur hafinn?
Stytting vinnutíma í dagvinnu verður útfærð á hverri stofnun fyrir sig. Starfsmenn velja sína fulltrúa í hópinn en auk þess verður hann skipaður fulltrúum sem forstöðumaður velur. Vinnutímahópur á hverjum vinnustað boðar síðan til umbótasamtals þar sem starfsmenn og stjórnendur ræða sameiginlega hvaða vinnutímafyrirkomulag henti best. Í kjölfarið leggur vinnutímahópurinn fram tillögu sem starfsmenn greiða atkvæði um. Gert er ráð fyrir að niðurstaða umbótasamtals og þar með skipulags vinnutíma á stofnun liggi fyrir 1. október 2020 og að nýtt fyrirkomulag taki gildi eigi síðar en 1. janúar 2021.

Félagið sendi nýlega bréf á öll sveitarfélög á félagssvæðinu þar sem spurt var hvort búið væri að skipa í vinnutímanefnd vegna þessara mála. Miðað við þau svör sem borist hafa, en einungis eitt sveitarfélag á eftir að svara, virðist vera sem lítið sé um að undirbúningur sé hafinn, þrátt fyrir að niðurstaðan varðandi dagvinnu hafi átt að liggja fyrir 1. október sl. Reyndar óskaði einn sveitarstjóri eftir fundi með félaginu um hvernig best væri að standa að þessu og hefur sá fundur þegar farið fram.

Björn og Arnór verða í forsvari varðandi þessar breytingar fyrir hönd félagsins og á fyrrgreindum fundum bað Björn trúnaðarmenn að vera duglega að ræða þessi mál við samstarfsmenn sína og vera í sambandi við félagið með allar þær spurningar sem eiga eftir að koma upp í þeim samtölum. 

Nánar um betrivinnutimi.is
Á kynningarvefnum er farið yfir mögulegar útfærslur á styttingu vinnutíma dagvinnufólks og þær breytingar sem verða á vinnufyrirkomulagi vaktavinnufólks. Á vefnum er einnig leitast við að svara helstu spurningum og veita leiðbeiningar um framkvæmd breytinganna sem eiga að leiða til betri vinnutíma. Þá er einnig að finna svokallaðan vaktareikni sem hægt er að nota til þess að fá betri mynd af því hvaða breytingar nýtt vinnufyrirkomulag getur haft á kjör vaktavinnufólks.

Félagið hvetur félagsmenn sem starfa hjá ríki eða sveitarfélögum til að kynna sér efnið á vefnum vel og vandlega enda verður útfærslan á styttingu vinnutímans með ólíkum hætti eftir því hvort fólk vinnur hefðbundna dagvinnu eða vaktavinnu.

Búið er að setja inn hnapp á heimasíðu félagsins sem vísar beint á kynningarvefinn.