Stytting vinnutíma á almennum vinnumarkaði

Í flestum kjarasamningum sem voru undirritaðir 2019 og 2020 er kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku. Þetta á þó ekki við um öll stéttarfélög, því ýmsir hópar eru með annars konar útfærslu á vinnuskyldu en hefðbundna 40 stunda vinnuviku.

Hjá félagsmönnum innan SGS, þar á meðal Einingar-Iðju, þarf að gera greinarmun á styttingu vinnutímans hjá annars vegar starfsfólki á almennum vinnumarkaði og hins vegar starfsfólki ríkis og sveitarfélaga.

Hjá starfsfólki á hinum almenna vinnumarkaði var samið um að á grundvelli meirihlutasamþykkis í atkvæðagreiðslu eigi starfsmenn rétt á að fram fari viðræður um vinnutímastyttingu í 36 virkar vinnustundir á viku að jafnaði samhliða niðurfellingu kaffitíma á dagvinnutímabili. Stjórnendur fyrirtækja geta einnig óskað eftir viðræðum.

Í viðræðum á að gera tillögur um fyrirkomulag hléa með það að markmiði að ná fram gagnkvæmum ávinningi og bæta nýtingu vinnutíma þar sem því verður við komið. Ef formlegir kaffitímar eru felldir niður á að skipta ávinningi vegna bættrar nýtingar vinnutíma og aukinnar framleiðni milli starfsmanna og atvinnurekanda, hlutdeild starfsmanna felst í viðbótarstyttingu virks vinnutíma.

Náist samkomulag um niðurfellingu kaffitíma verður virkur vinnutími 36 klst. á viku, án skerðingar mánaðarlauna. Fyrirkomulag styttingar virks vinnutíma geta verið útfærð á marga vegu, t.d:

  1. Tekin eru sveigjanleg hvíldarhlé frá vinnu, eitt eða fleiri.
  2. Hádegishlé lengt.
  3. Hver vinnudagur styttur, umsaminn fjöldi vinnudaga styttur eða einn dagur vikunnar styttur.
  4. Styttingu safnað upp í frí heila eða hálfa daga.
  5. Blönduð leið.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag, gildistöku og atkvæðagreiðslu samkomulags má finna í 5. kafla kjarasamnings SGS og SA.

Hvað varðar styttingu vinnutímans hjá starfsfólki ríkis og sveitarfélaga þá má finna ýtarlegar leiðbeiningar og fræðsluefni á kynningarvefnum betrivinnutimi.is