Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins og Félagsmálaskóli alþýðu hafa hlotið 4 milljón króna styrk frá félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra til að vinna fræðslumyndbönd sem verða liður í baráttunni gegn heimilisofbeldi, mansali og áreitni. Styrkveitingin var formlega afgreidd á fundi í húsakynnum ASÍ í dag að viðstöddum ráðherrum og fulltrúum þeirra samtaka og stofnana sem koma að verkefninu.
Myndböndin verða nýtt í fræðslu Félagsmálaskólans til trúnaðarmanna. Annars vegar verður unnið myndband um eðli og afleiðingar heimilisofbeldis og þá með áherslu á hlutverk vinnustaða og samstarfsfólks í að skilja og geta brugðist við merkjum um heimilisofbeldi. Hins vegar verður unnið myndband um mansal og verður það nýtt jöfnum höndum í trúnaðarmannafræðslu og til að efla þekkingu vinnustaðaeftirlitsfulltrúa í að greina mögulegt mansal og aðra misnotkun.
Varða mun leiða vinnuna við efnistök myndbandanna í nánu samráði við Félagsmálaskólann, Jafnréttisstofu, Kvennaathvarfið, Vinnueftirlitið og 112.
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu:
„Í gengum Félagsmálaskóla Alþýðu stendur verkalýðshreyfingin að fræðslu fyrir trúnaðarmenn sem starfa inni á vinnustöðum um allt land. Þetta net getur reynst mikilvægur hlekkur í baráttunni gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Í tilfelli heimilisofbeldis getur til að mynda verið sérstaklega mikilvægt að samstarfsfólk geti greint merki um ofbeldi og kunni að bregðast rétt við.“
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra:
„Til að ná árangri í baráttunni gegn ofbeldi þurfum við öll að taka höndum saman, hafa augun opin og leita aðstoðar. Sú fræðsla fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum sem Félagsmálaskóli Alþýðu stendur fyrir um allt land mun gera þá hæfari til að sjá merki um ofbeldi og mansal og auðvelda þeim að bregðast við slíkum aðstæðum.”
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:
„Að undanförnu hafa verið stigin mikilvæg skref af hálfu stjórnvalda til að taka á ofbeldi og alvarlegum afleiðingum þess. Fyrirbyggjandi aðgerðir gegna lykilhlutverki í því verkefni að sporna gegn ofbeldi og ofbeldismenningu. Fræðsla af því tagi sem við styrkjum nú stuðlar að því að fyrirbyggja eða greina snemma ofbeldi þannig að það valdi sem minnstum skaða fyrir einstaklinga og samfélagið."