Peningastefnunefnd tilkynnti í morgun að stýrivextir yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur og eru þeir nú 2,75%. Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að hagvöxtur í fyrra hafi að öllum líkindum verið meiri en spár gerðu ráð fyrir en á móti hafi horfur fyrir þetta og næsta ár versnað. Jafnframt hafi hjöðnun verðbólgunnar skapað svigrúm til vaxtalækkunar en verðbólga hefur ekki mælst minni frá hausti 2017.
Samhliða vaxtaákvörðun gaf Seðlabankinn út ritið Peningamál en í ritinu má finna yfirlit yfir þjóðhagsspá bankans. Útlit er fyrir að hagvöxtur á síðasta ári hafi verið meiri en væntingar voru um en horfur fyrir þetta ár og hið næsta hafa versnað. Þar munar um minni fjárfestingar og verri horfur í útflutningi en nú er gert ráð fyrir því að útflutningur dragist saman á þessu ári. Samdráttur útflutnings skýrist ekki eingöngu að hægari bata ferðaþjónustu heldur einnig loðnubresti og framleiðsluhnökrum í áliðnaði. Er tekið fram að þetta yrði í fyrsta sinn frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar sem útflutningur dregst saman tvö ár í röð. Nokkur breyting er á þjóðarútgjöldum frá síðustu spá, en nú er spáð 2,1% vexti þjóðarútgjalda á þessu ári en ekki 3,7% sem skýrist af framangreindum breytingum í fjárfestingum.
Einkaneysla jókst um 2,1% milli ára á þriðja ársfjórðungi og gerir Seðlabankinn ráð fyrir því að vöxtur á síðasta ári verði 2,0% sem er hækkun um 0,3 prósentustig frá síðustu spá. Vöxtur á síðara hluta ársins var því umfram væntingar en vísbendingar um vöxt á fjórða ársfjórðungi voru jákvæðar, en þar er bent á 6% vöxt greiðslukortaveltunnar í desember. Seðlabankinn spáir nú meiri vexti einkaneyslunnar á þessu ári en í síðustu spá sinni, eða 2,4%.
Hægari þróun efnahagslífsins hefur komið skýrast fram á vinnumarkað í gegnum aukið atvinnuleysi og spáir Seðlabankinn því núna að atvinnuleysi hjaðni hægar en áður var talið. Atvinnuleysi verður að jafnaði um 4% á þessu ári og á næsta ári og er á það bent að slaki í þjóðarbúinu vari lengur en áður var talið. Í peningamálum er farið yfir niðurstöður könnunar sem gerð er meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Í könnuninni er m.a. spurt um vinnuaflseftirspurn en niðurstöður gefa til kynna að starfandi geti fækkað á næstu misserum. Verstar voru horfurnar í byggingarstarfsemi þar sem útlit er fyrir að störfum fækki næsta misserið en einnig hefur svartsýni aukist í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu. Aðeins er útlit fyrir fjölgun í sérhæfðri starfsemi.