Í síðustu viku var farið í sameiginlega eftirlitsferð á ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi. Markar þessi ferð ákveðin tímamót í samstarfi þeirra stjórnsýslustofnana sem koma með einum eða öðrum hætti að eftirliti á vinnumarkaði og stéttarfélagana.
Níu manns frá Ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnun, Vinnueftirliti auk eftirlitsfulltrúa stéttarfélaganna á Suðurlandi og starfsmanni verkefnisins EINN RÉTTUR-EKKERT SVINDL!, tóku þátt. Nokkur hótel og gistiheimili á svæðinu voru tekin út og gaman að segja frá því að þessi fyrirtæki voru með hlutina í nokkuð góðu lagi. Þó vantaði nokkuð upp á aðbúnað og starfsumhverfi á einu gistiheimili og tilefni gafst til að leiðrétta ýmsan misskilning varðandi sjálfboðaliðsstörf og réttindi starfsmanna á öðru.
Í framhaldinu munu fulltrúar þessara aðila á Suðurlandi vera í samstarfi og standa sameiginlega að vinnustaðaheimsóknum og reglubundnu eftirliti á svæðinu.
Á næstunni verður farið í svipaðar aðgerðir víðar um land. Þegar er komin dagsetning á aðgerðir á Suðurnesjum og gert ráð fyrir að fljótlega verði einnig farið á Vesturland.
Mikilvægt er að framangreindir aðilar vinni saman því það gefur aðgerðunum mun meiri slagkraft auk þess sem markmið allra er það sama þ.e. að vinna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Einnig sýnir reynslan að ef atvinnurekandi er að brjóta á sínu starfsfólki þá er yfirleitt pottur brotinn á fleiri sviðum og því er samstarf af þessu tagi bæði nauðsynlegt og árangursríkt.