Stofnun almenns íbúðafélags í tilefni af 100 ára afmæli ASÍ 12. mars 2016

Alþýðusamband Íslands áformar að stofna almennt íbúðafélag sem tryggirtekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði. Félagið, sem verður sjálfseignastofnun með takmarkaða ábyrgð og rekið án hagnaðarmarkmiða verður stofnað um leið og Alþingi hefur afgreitt frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um almennar íbúðir. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til aðildarsamtaka ASÍ í tengslum við gerð kjarasamninganna í maí 2015 er þegar búið að tryggja stuðning við byggingu a.m.k. 2.300 félagslegar íbúða á næstu fjórum árum. Með stofnun þessa félags vill Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess leggja sitt af mörkum til þess að af byggingu og rekstri þessara íbúða geti orðið sem fyrst. Jafnframt mun Alþýðusambandið leggja áherslu á að félagið nýti þekkingu sína og stöðu til að reka samhliða leiguhúsnæði á almennum húsnæðismarkaði og verði sá rekstur einnig án hagnaðarsjónarmiða.

Tekjulágar fjölskyldur búa margar við óásættanlegt óöryggi í húsnæðismálum og hafa húsnæðiskostnað sem er langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Þetta veldur fjölskyldum bæði félagslegum og fjárhagslegum vanda sem er ólíðandi. Úrbætur í þessum málum eru því eitt brýnasta velferðar- og lífskjaramál launafólks sem ekki þolir lengri bið. Alþýðusamband Íslands beitti sér fyrir stofnun verkamannabústaðakerfisins í árdaga sinnar baráttu, en það kerfi var illu heilli lagt af upp úr síðustu aldamótum. Allar götur síðan hefur ASÍ barist fyrir því að koma hér á félagslegu húsnæðiskerfi og er nú loksins að sjá fyrir endann á þeirri baráttu. Það er því vel við hæfi að Alþýðusambandið standi að stofnun Íbúðafélags alþýðu í tilefni af 100 ára afmæli sínu.

Alþýðusamband Íslands mun leggja fram 10 mill.kr. í stofnfé til þessa almenna íbúðafélags þannig að ekki þurfi að koma til þess að væntanlegir íbúar þurfi ekki að leggja fram slíkt stofnfé. Til að leggja þessu mikilvæga málefni lið verður leitað til aðildarfélaga ASÍ um að veita íbúðafélaginu víkjandi lán upp á allt að 100 mill.kr. til að tryggja félaginu rekstrarfjármögnun fyrstu 5 árin, eða þar til reksturinn er orðinn að því umfangi að hann verði sjálfbær.

Félagið verður skipulagt á grundvelli virks íbúðalýðræðis um daglegan rekstur einstakra deilda/húsfélaga og fulltrúalýðræðis m.t.t. stjórnar sameiginlegra heildarhagsmuna og uppbyggingar félagsins. Verkefnið verður samstarfsverkefni stéttarfélaganna og íbúanna, þannig að fulltrúaráðið verður skipað bæði fulltrúum viðkomandi stéttarfélaga, tilnefndum af miðstjórn ASÍ, og fulltrúum þeirra íbúa sem búa í leiguíbúðum félagsins hverju sinni.

Fulltrúaráðið mun fara með æðstu stjórn félagsins, sem kýs stjórn og endurskoðendur, afgreiðir ársreikninga og mótar stefnu íbúðafélagsins á grundvelli stofnsamþykkta þess. Fulltrúar stofnaðila í fulltrúaráði skulu tilnefna a.m.k. þriðjung stjórnar, þ.m.t. formann en fulltrúaráðið kýs aðra stjórnarmenn.

Stjórn íbúðafélagsins fer með daglega stjórn félagsins og deilda þess. Stjórnin er ábyrg fyrir rekstri, þ.m.t. útleigu, fjárhagsáætlun, bókhaldi og gerð ársreikninga, ákvörðun húsaleigu og að daglegur rekstur sé í samræmi við gildandi lög og reglur. Stjórnin er jafnframt ábyrg fyrir samskiptum við stjórnvöld, þ.m.t. skilum á gögnum og upplýsingum um reksturinn og útleiguna, ræður framkvæmdastjóra og setur honum starfsreglur.

Kjarnastarfsemi íbúðafélagsins skal vera að byggja, kaupa, leigja, stjórna, viðhalda og endurbyggja leiguíbúðir sem byggðar verða á grundvelli laga um almennar íbúðir. Íbúðafélagið getur þar að auki tekið þátt í starfsemi sem er í beinum tengslum við íbúðirnar og stjórn þeirra eða á grundvelli þeirrar þekkingar, sem félagið hefur aflað sér. Þar með talið er utanumhald um byggingaframkvæmdir á almennum markaði fyrir félagsmenn stéttarfélaga, án þess þó að gangast í ábyrgð fyrir slíkum framkvæmdum.

Í samþykktum eða skipulagsskrá Íbúðafélags alþýðu verður að auki fjallað um þau atriði sem kveðið er á um í lögum.

Viljayfirlýsing um uppbyggingu á 1.000 íbúðum
Alþýðusamband Íslands og Reykjavíkurborg skrifuðu þann 12. mars sl. undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á 1.000 íbúðum á næstu fjórum árum. Eins og segir hér að fram mun Alþýðusambandið í tilefni af 100 ára afmæli sínu standa fyrir stofnun almenns íbúðafélags, leggja fram nauðsynlegt stofnfé og leita til aðildarfélaga sinna um nauðsynlega rekstrarfjármögnun. Reykjavíkurborg mun leggja til lóðir vegna uppbyggingarinnar. Markmið félagsins er að bjóða upp á ódýrt leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga.

Unnið verður að uppbyggingunni í samræmi við samþykktir ASÍ í húsnæðismálum, samþykktir almenna íbúðafélagsins, húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar, leiðarljósa borgarráðs um Nýju Reykjavíkurhúsin og samningsmarkmið Reykjavíkurborgar um ný uppbyggingarsvæði.

Verkalýðshreyfingin og Reykjavíkurborg hafa verið lykilsamstarfsaðilar þegar hefur komið að átaki í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og má þar nefna verkamannabústaðina við Hringbraut og Breiðholti ásamt íbúðum í Ártúnsholti og víðar. Áratugir eru síðan verkalýðshreyfingin hefur komið með jafn beinum og afgerandi hætti að uppbyggingarverkefnum í borginni og í jafn nánu samstarfi við borgaryfirvöld. 

Viljayfirlýsingin sem hér er samþykkt verður unnin á grundvelli væntanlegra laga um almennar íbúðir, sem nú liggur fyrir Alþingi og er háð fyrirvara um samþykkt þess og samþykki stjórnvalda vegna stofnframlags ríkisins.

„Eins og umræða um húsnæðismálin hefur þróast var orðið ljóst að ef verkalýðshreyfingin beitti sér ekki í því að koma á fót íbúðafélagi sem biði tekjulágum fjölskyldum upp á ódýrar leiguíbúðir þá myndi enginn gera það. Þess vegna ákváðum við að verða aftur virkir þátttakendur á húsnæðismarkaði eins hreyfingin var svo lengi á síðustu öld. Að fá lóðir undir 1000 íbúðir frá borginni inn í verkefnið reið baggamuninn. Án þess hefði þetta varla verið gerlegt,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.

„Þessi yfirlýsing markar tímamót. Það eru áratugir síðan verkalýðshreyfingin hefur komið að byggingu húsnæðis á viðráðanlegu verði með jafn afgerandi hætti. Það er sérstakt fagnaðarefni. Áformin falla fullkomlega að húsnæðisstefnu og húsnæðisáætlun borgarinnar sem miðar að uppbyggingu fjölbreytts húsnæðis á viðráðanlegu verði. Oft var þörf en nú er nauðsyn,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.