Stöðvum kennitöluflakk

Alþýðusamband Íslands hefur lengi gagnrýnt andvaraleysi og ótrúlegt langlundargeð löggjafans og stjórnvalda gagnvart kennitöluflakki og þeim skaða sem slík starfsemi veldur. 

Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hlutafélagi og einkahlutafélagi) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag a.m.k. milljarða króna á ári.

Samfélagslegt tjón

Kennitöluflakk og misnotkun á félögum (hf./ehf.) með takmarkaða ábyrgi hefur alvarleg og víðtæk áhrif fyrir samfélagið allt, atvinnulífið og launafólk og veldur þannig miklu samfélagslegu tjóni fyrir:

  • Starfsmenn sem eiga útistandandi launakröfur á hin gjaldþrota félög auk þess að tapa starfi sínu og margvíslegum réttindum.
  • Fyrirtæki í hliðstæðum rekstri sem standa skil á sínu og búa við skekkta samkeppnisstöðu. Starfsmenn þeirra sem vegna skekktrar samkeppnisstöðu verða af kjörum og réttindum með beinum og óbeinum hætti. Birgja sem fá ekki greidda sína vöru og þjónustu og geta jafnvel vegna ruðningsáhrifa slíks tjóns, sjálfir orðið gjaldþrota. Einstaklingar  sem eiga viðskipti við félagið.
  • Sameiginlega sjóðir landsmanna sem verða af tekjum sem skipta a.m.k. milljörðum á hverju ári. Tekjum sem nýta mætti til að bæta þjónustu heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfisins svo dæmi séu tekin.

Alþýðusambandið hefur lengi bent á Ísland er eftirbátur nágrannaþjóðanna þegar kemur að úrræðum til að sporna við kennitöluflakki.

Sameiginlegar tillögur ASÍ og SA

Þann 20. júní sl. kynntu ASÍ og SA umfangsmiklar tillögur um aðgerðir gegn kennitöluflakki í sjö liðum. Þar er kveðið á um að hægt verði að banna þeim sem verða uppvísir að kennitöluflakki að eiga og reka hlutafélög og einkahlutafélög í allt að þrjú ár. Lagt er til að Ríkisskattstjóra verði veitt heimild til að úrskurða kennitöluflakkara í atvinnurekstrarbann að fengnum úrskurði dómstóla. Bannið myndi ekki einungis ná til skráðra stjórnenda heldur einnig til svokallaðra skuggastjórnanda. Skilyrði atvinnurekstrarbanns eru óverjandi viðskiptahættir eða rökstuddur grunur um refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur.

Það er til mikils að vinna en það liggur fyrir að fjárfesting í baráttu gegn kennitöluflakki skilar sér margalt til baka.

Mikilvægt er að gera greinarmun á kennitöluflakki og gjaldþrotum fyrirtækja sem eiga sér eðlilegar skýringar og þar sem vilji er til að standa við lagalegar skuldbindingar eins og hægt er. Kennitöluflakk felur hins vegar í sér glæpsamlega starfsemi þar sem markmiðið er að koma undan fjármunum.

Alþýðusambandið væntir þess að það náist víðtæk pólitísk samstaða um aðgerðir geng kennitöluflakki strax í vetur.