Í fréttaskýringarþættinum Kveik á Rúv í gærkvöldi var varpað ljósi á brotastarfsemi sem viðgengst á vinnumarkaði gagnvart erlendu launafólki. Þar voru sýnd dæmi um alvarlega meinsemd í íslensku samfélagi sem lýsir sér í stórfelldum launaþjófnaði, alvarlegum brotum gangvart öryggi og aðbúnaði erlendra starfsmanna, illri meðferð og framgöngu fyrirtækja sem þegar verst lætur verður ekki lýst nema sem vinnumansali.
Á vef ASÍ segir að mikilvægt er að árétta að erlenda launafólkið er að leggja mikið til samfélagsins og sá hagvöxtursem hér hefur verið síðustu misseri er að stórum hluta drifinn áfram af þeirra framlagi til verðmætasköpunar í íslensku samfélagi. Þessir félagar okkar eiga lög- og samningsbundinn rétt til að njóta kjara og annarra réttinda til jafns við aðra á vinnumarkaði. Það er skylda verkalýðshreyfingarinnar að sjá til þess að réttur þeirra sem annarra launamanna sér virtur.
Verkalýðshreyfingin hefur á undangengnum árum bent á þá öfugþróun sem verið hefur á íslenskum vinnumarkaði og varpað var ljósi á í Kveik. Og dæmin skipta ekki bara tugum eða hundruðum. Brotin snerta þúsundir erlends launafólks. Alþýðusambandið og aðildarfélög þess hafa brugðist við með því að stórefla upplýsingamiðlun og vinnustaðaeftirlit með það að markmiði að styðja þessa félaga okkar og aðstoða þá við að sækja rétt sinn. Þá hefur verkalýðshreyfingin beitt sér fyrir mikilvægum réttarbótum, nú síðast með löggjöf um keðjuábyrgð.
Sá árangur sem náðst hefur dugar hvergi nærri til. Það þarf að senda skýr skilaboð til fyrirtækja og samfélagsins alls um að brotastarfsemi á vinnumarkaði og misnotkun á erlendu launafólki verði að uppræta með öllum tiltækum ráðum. Það eru hagsmunir þessara félaga okkar. Það eru hagsmunir alls launafólks. Það eru hagsmunir heilbrigðs atvinnulífs og samfélagsins alls. Hér er ábyrgð stjórnvalda og Alþingis mikil.
Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess skorar á stjórnvöld og Alþingi að hefjast þegar handa í samstarfi við verkalýðshreyfinguna.
Upprætum launaþjófnað og brotastarfsemi á vinnumarkaði með öllum ráðum!
Ef þú ert með ábendingu bendum við á eftirfarandi hlekki:
https://www.asi.is/stefna-asi/einn-rettur-ekkert-svindl/abending/