Á stjórnarfundi Einingar-Iðju sem fram fór í gær var m.a. tekið fyrir erindi frá Vinnumálastofnun þar sem tilkynnt var að stofnunin muni ekki framlengja þjónustusamning sem hún er með við félagið. Samningurinn var vegna þjónustu starfsmanna félagsins á Dalvík og Fjallabyggð við atvinnuleitendur og aðstöðu fyrir starfsmenn stofnunarinnar á skrifstofunum. Í erindinu kemur fram að ástæðan sé ný tilhögun á móttöku umsókna um atvinnuleysistryggingar. Breytingin er fólgin í því að umsækjendur munu ekki lengur þurfa að undirrita umsókn sína heldur mun verða unnt að staðfesta hana með rafrænum hætti.
Félagið hefur þjónað atvinnuleitendur svo lengi sem elstu starfsmenn muna, en frá næstu áramótum mun félagið hætta því. Starfsmenn á þessum skrifstofum munu því ekki lengur taka á móti gögnum frá atvinnuleitendum, eins og launaseðlum, skattkortum og vottorðum frá vinnuveitendum, og senda á skrifstofu Vinnumálastofnunar á Akureyri eða á Greiðslustofu atvinnuleysistrygginga.
Miklar umræður urðu um málið og var eftirfarandi ályktun samþykkt einróma.
„Stjórn Einingar-Iðju gagnrýnir Vinnumálstofnun harðlega fyrir þá ákvörðun að hætta þjónustu við atvinnuleitendur á Dalvík og í Fjallabyggð. Með breyttum vinnuaðferðum lítur stjórn félagsins svo á að Vinnumálastofnun sé ekki að sinna hlutverki sínu og telur að málum atvinnuleitenda sé best komið í höndum stéttarfélaganna í landinu.
Vinnumálastofnun heyrir undir velferðarráðuneytið og því vill stjórn félagsins skora á ráðherra að endurskoða strax þessa nýju tilhögun á móttöku umsókna því breytingin skapar mikla óvissu.
Mannlegi þátturinn hverfur og því geta ráðgjafar stofnunarinnar ekki lengur leiðbeint eða svarað spurningum sem vakna hjá þeim sem eru að sækja um. Upplýsingalæsi skiptir líka miklu máli í þessu samhengi, því ekki eru allir vel færir í slíku. Þessi breyting getur komið illa við marga hópa, t.d. þá sem hafa litla menntun eða eru lesblindir. Vinnumálastofnun verður að muna að þjónusta þeirra er ekki bara umsýsla á pappír, mannlegi þátturinn telur mikið í slíkri starfsemi.“
Fyrr í morgun var ályktunin send á Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra og á Önnu Lilju Gunnarsdóttur ráðuneytisstjóra Velferðarráðuneytisins. Afrit var einnig sent á Gissur Pétursson, forstjóra Vinnumálastofnunar, og Soffíu Gísladóttur, forstöðumann Vinnumálastofnunar Norðurlands eystra og Austurlandi