Stíft vinnupl­an lagt upp

Í morgun fór fram fundur í húsakynnum ríkissáttasemjara í kjaradeilu Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins. SGS vísaði kjaradeilunni til sáttasemjara í síðustu viku en þá hafði sambandið átt um 110 samningafundi með SA. Í yfirlýsingu sem SGS sendi frá sér í tilefni þess að þau sendu deiluna til sáttasemjara sagði meðal annars að sambandið teldi litlar líkur um árangur af frekari samningaumleitunum við SA. 

Bryn­dís Hlöðvers­dótt­ir rík­is­sátta­semj­ari sagði í samtali við mbl.is að þar sem þetta hefði verið fyrsti fundir þá var verið að fara yfir praktísk atriði og leggja upp vinnupl­an fyr­ir næstu daga og vik­ur. „Við erum sam­mála um það að leggja upp til­tölu­lega stíft vinnupl­an fyr­ir dag­ana og vik­urn­ar fram und­an,“ sagði Bryn­dís við mbl.is en gert er ráð fyr­ir að fyrstu vinnufund­ir SGS og SA hefj­ist strax á föstu­dags­morg­un. „Helg­in verður und­ir og dag­arn­ir í vik­unni fram und­an. Svo verða hóp­arn­ir kallaðir inn eft­ir þörf­um.“

Bryndís hefur jafnframt beðið  samningsaðila í deilunni að tjá sig ekki við fjölmiðla.  Embættið hafi tekið samskiptin yfir.  

„Ég mæltist til þess að við myndum einbeita okkur að því verkefnum sem við höfum hér á borðinu svo að við fengjum vinnufrið til að sinna þeim verkefnum. Ég mun eftir þörfum gefa upplýsingar um stöðu máli en að öðru leyti tjá samningsaðilar sig ekki um viðræðurnar að svo stöddu,“ sagði Bryndís við ruv.is í morgun.