Í maí sl. hélt skrifstofa ASÍ í fundarherferð um landið þar sem haldnir voru 10 fundir til að undirbúa 43. þing Alþýðusambandsins sem fer fram 24.-26. október nk. Í gær fór fram á Húsavík fyrsti fundur í seinni fundarherferð ASÍ til að undirbúa þingið og mættu 14 félagsmenn Einingar-Iðju á fundinn.
Fjallað var um þau verkefni og áskoranir sem Alþýðusambandið, aðildarfélögin og launafólk standa frammi fyrir nú og í næstu framtíð og hvernig á að takast við þær út frá grunngildum og baráttu verkalýðshreyfingarinnar.
Á fundinum í gær var fjallað um húsnæði- og velferðarmál, en á fyrri fundunum var fjallað um tekjuskipting og jöfnuður, tækniþróun og skipulag vinnunnar og jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs.
Tilgangur fundanna var að auðvelda þátttakendum að tjá sig um það sem á þeim brennur, kynna þeim viðfangsefnin og gera þeim kleift að koma með ábendingar og tillögur að áherslum og aðgerðum af hálfu Alþýðusambandsins og aðildarfélaganna. Notast var við fundarform sem byggir á sem mestri virkni fundarmanna.
Eftir að þessari seinni fundarherferð lýkur verða lögð fyrir miðstjórn drög að stefnuyfirlýsingu og aðgerðaráætlun byggð á niðurstöðum fundanna, sem síðan verður lögð fyrir 43. þing ASÍ til frekari umfjöllunar og afgreiðslu.