Á heimasíðu SGS segir að formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands hittust ásamt varaformönnum á fundi á
Húsavík í gær og í dag til að fara yfir undirbúning kjarasamninga. Nú þegar hefur Eining-Iðja í Eyjafirði veitt
Starfsgreinasambandi Íslands umboð til kjarasamningagerðar og fleiri félög ræða fyrirkomulag samninga í sínum röðum.
Um allt land eru haldnir fundir með trúnaðarmönnum, gerðar kannanir á vinnustöðum og haldnir opnir fundir til að gefa öllum færi á að
koma sínum sjónarmiðum að í áherslum fyrir kjarasamningana sem eru lausir í lok nóvember. Samhljómur var meðal formanna um að
bíða þyrfti átekta til að sjá hvort samið yrði til lengri eða skemmri tíma og færi það að stórum hluta eftir
því hvernig ríkisstjórnin hyggst stýra efnahagsmálum. Þá þarf að tryggja það að launahækkanir sem um er samið
fari ekki jafn óðum út í verðlagið í gegnum hækkun gjaldskráa hins opinbera og almennt vöruverð.
Eftir að hafa haldið fjórar kjaramálaráðstefnur í vetur fara aðildarfélögin vel nestuð inn í vinnu við kröfugerð en stefnt er að því að sameiginleg kröfugerð Starfsgreinasambandsins verði tilbúin í síðasta lagi 1. október.