Starfsgreinasambandið frestar verkföllum og gefur SA tækifæri til lausna

Ákveðið hefur verið að fresta fyrirhuguðu verkfalli 10.000 félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands dagana 19. og 20. maí. Að auki hefur ótímabundnu verkfalli sem átti að hefjast 26. maí verið frestað. Það er mat samninganefndar SGS að gefinn skuli tími til úrslitatilrauna í samningaviðræðum á þessu stigi málsins. 

Með þessu axlar SGS ábyrgð á erfiðum kjaradeilum og gefur Samtökum atvinnulífsins tækifæri til að koma með tillögur sem hönd er á festandi áður en landið lamast í verkföllum og hér skellur á neyðarástand á vinnumarkaði. 

Frestun verkfalla á þessu stigi málsins er framlag Starfsgreinasambandsins til skynsamlegra lausna á kjaradeilunni. Ljóst er að það verður að leysa málið og semja hvort sem það verður gert með verkfallsafli með ófyrirsjáanlegum afleiðingum eða með skynsemina að vopni. Boltinn er hjá Samtökum atvinnulífsins að nálgast skynsamar og ábyrgar kröfur Starfsgreinasambandsins. 

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins hefur því ákveðið eftirfarandi: 

  • Verkföll sem áttu að koma til framkvæmdar 19. og 20. maí er frestað til 28. og 29. maí.
  • Ótímabundnu verkfalli sem átti að koma til framkvæmda 26. maí er frestað til 6. júní. 

„Eftir tvær vikur hefjast verkföll af stærðargráðu sem við höfum ekki séð áður ef ekki tekst að semja. Þau munu hafa veruleg og víðtæk áhrif og það er mikið til vinnandi að afstýra slíku. Framlag Starfsgreinasambandsins í þessu samhengi er að gefa andrými næstu tvær vikurnar til að semja svo ekki þurfi að koma til þessara hörðu aðgerða,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins og Einingar-Iðju.