Undanfarin misseri hefur aukin áhersla verið lögð á starfsendurhæfingu samhliða vinnu hjá VIRK og hafa margir þjónustuþegar nýtt sér þennan kost. Vinnan sjálf getur oft verið besta úrræðið í starfsendurhæfingunni en rannsóknir hafa einmitt sýnt að úrræði sem tengjast vinnustaðnum eru oft árangursríkari.
„Það að fá tækifæri til að draga úr starfshlutfalli og sækja starfsendurhæfingu samhliða vinnu getur reynst mjög árangursríkt fyrir marga. Þá stígur fólk aldrei alveg frá vinnustaðnum heldur er reynt að aðlaga starfið að getu einstaklingsins, yfir ákveðinn tíma." segir Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri ráðgjafar og atvinnutengingar hjá VIRK.
Þjónustuþegar VIRK sem nýta sér starfsendurhæfingu samhliða vinnu þurfa að hafa tíma til að sækja viðeigandi úrræði auk þess sem mikilvægt er að geta hvílt sig og safnað kröftum.
Því er ekki mögulegt að vera í fullri vinnu eða námi samhliða starfsendurhæfingunni. Að taka virkan þátt í starfsendurhæfingu þarf sinn tíma og það er erfitt ef viðkomandi er í fullu starfi eða námi.
Stefnt er að sama markmiði hvort sem fólk er að sækja starfsendurhæfingu með vinnu eða hefur farið alveg af vinnumarkaðinum – að ná heilsu aftur til að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði.