Starfsmenn á námskeiði

Allir rólegir í upphafi námskeiðs
Allir rólegir í upphafi námskeiðs

Í gær fóru starfsmenn félagsins á frábært námskeið sem heitir „Mitt allra besta.“ Leiðbeinandi var Bjartur Guðmundsson, árangursþjálfi og leikari, en hann fjallaði um mátt tilfinninganna, áhrif þeirra á ákvarðanir okkar og athafnir og hvernig við getum tekið stjórn á þessu mikla afli svo það vinni hratt og örugglega með okkur í stað þess að hafa tilviljanakennd áhrif á líf okkar með ýmist jákvæðum eða neikvæðum afleiðingum. Hugmyndafræðin og aðferðirnar sem Bjartur fór yfir á námskeiðinu miða að því að byggja upp færni til þess að kveikja á og kynda upp tilfinningar sem stórauka aðgengi okkar að innri auðlindum og bæta gæði daglegra ákvarðanna og athafna jafnt í vinnu sem og heima fyrir.

Einu sinni á ári fara starfsmenn Einingar-Iðju á námskeið til að styrkja þá í starfi, ekki síst í þeim tilgangi til að geta veitt félagsmönnum enn betri þjónustu.

Aðeins um námskeiðið
Rannsóknir í jákvæðri sálfræði sýna að tilfinningalegt ástand okkar hefur gríðarleg áhrif á aðgengi taugakerfisins að innri auðlindum eins og upplýsingum, sjálfsöryggi, hæfileikum, kunnáttu, visku, sköpunargáfu, samskiptahæfni, áhrifamætti og færni til að leysa vandamál og verkefni. Tilfinningalegt ástand hefur áhrif á færni okkar til að meðtaka upplýsingar og læra. Það hefur áhrif á hvað við erum tilbúin að gera og hvað ekki. Það hefur stórkostleg áhrif á ákvarðanir okkar, athafnir og hvernig við túlkum og upplifum aðstæður. Tilfinningalegt ástand hefur einnig áhrif á hvaða tækifæri við sjáum og hvaða tækifæri við grípum eða látum okkur úr greipum ganga.

Mannlegar tilfinningar eru eitt sterkasta afl sem við höfum aðgengi að. Þær eru drifkrafturinn að baki öllum okkar athöfnum. Kraftur þeirra er eins og kjarnorka sem hægt er að virkja á stórfenglegn hátt. Þetta afl býr í sama mæli innra með okkur öllum og getur fært okkur velgengi og hamingju ef við lærum að temja það. Staðreyndin er þó sú að fáir átta sig raunverulega á mætti tilfinninganna og enn færri búa yfir þekkingu og færni til að nýta þetta mikla afl á meðvitaðan og uppbyggilegan hátt.