Aldrei hafa fleiri félagsmenn fengið greidda dagpeninga úr sjúkrasjóði félagsins eins og nú í september. Upphæðin sem greidd var út vegna dagpeninga var um 14 milljónir og að auki voru greiddar út um 4 milljónir í ýmsa styrki.
Alls er búið að greiða um 115 milljónir í styrki og dagpeninga til félagsmanna á fyrstu níu mánuðum ársins úr sjúkrasjóði Einingar-Iðju. Dagpeningagreiðslur vega mest í upphæðinni, en á árinu 2019 fengu félagsmenn greidda um 124,5 milljónir króna í dagpeninga og alls um 160,5 milljónir úr sjúkrasjóði.
Dagpeningagreiðslur geta verið vegna eigin veikinda, mjög alvarlega veikinda maka eða langveikra og/eða alvarlegra fatlaðra barna. Það er eftir að hafa lokið kjarasamningsbundnum veikindarétti hjá vinnuveitenda.
Sem dæmi um aðrar greiðslur úr sjúkrasjóði má m.a. nefna greiðslur vegna líkamsræktar, sjúkraþjálfunar og sjúkranudds, viðtöl við sálfræðinga og geðlækna, gleraugnaglerja, heyrnartækja, krabbameinsleitar o.fl.
Mjög mikilvægir
Á þessu má sjá hvað sjúkrasjóðir stéttarfélaga eru mikilvægir félagsmönnum, en helsta hlutverk sjúkrasjóða er að mæta tekjutapi launamanna vegna tímabundins starfsorkumissis. Fjárhæð iðgjalds er ákveðin í kjarasamningum og er því sama hlutfall launa fyrir alla þá sem starfa samkvæmt sama kjarasamningi. Réttur til dagpeningagreiðslna stofnast með greiðslu iðgjalds en upphæð dagpeninga er ákveðið hlutfall af þeim launum sem iðgjöld hafa verið greidd af til sjóðsins. Því er mikilvægt að félagsmenn fylgist vel með hvort á launaseðli komi fram að vinnuveitandinn sé að greiða gjöld af viðkomandi í stéttarfélagið.