Stærsta lífsgæðamálið

Drífa Snædal, forseti ASÍ skrifar:

Vantraust á forsætisráðherra Svíþjóðar var samþykkt fyrir skömmu vegna þeirra stefnu hans að afnema leiguþak á nýbyggingar í Svíþjóð. Málið var hápólitískt enda fátt sem snertir lífskjör og lífsgæði fólks meira en aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði. Rökin fyrir að afnema leiguþakið voru að verktakar sæju ekki arðsemina í að byggja ef þeir gætu ekki sjálfir ráðið leiguverðinu. Húsnæðivanda Svíþjóðar mætti rekja til leiguþaksins og vandinn myndi leysast fengju húseigendur frítt spil. Forsætisráðherra Svíþjóðar hefði getað leitað til Íslands til að fá fullvissu um að húsnæðismarkaðurinn lagast ekki þótt ekkert sé leiguþakið. Slík stefna hefur verið við lýði hér á landi áratugum saman og hún er löngu gengin sér til húðar. Markaðurinn hefur ekki umhyggju fyrir aðstæðum fjölskyldna og fjöldi fólks sligast undan húsnæðiskostnaði. Það sem hefur bætt lífskjör eru félagslegar lausnir í húsnæðismálum, byggingarsamvinnufélög sem ekki eru byggð á kröfunni um arðsemi og njóta stuðnings hins opinbera.

Í tengslum við síðustu kjarasamninga voru húsnæðismál í kastljósinu og stjórnvöld gáfu ýmis loforð til að bæta hag fólks. Aukið fjármagn var sett í lausnir eins og Bjarg-leigufélag býður upp á, rannsóknir og gagnaöflum var efld en út af stendur krafan um ný húsaleigulög með leiguþaki. Það frumvarp er tilbúið en var því miður aldrei lagt fram á þingi. Í því eru ákvæði um að leigusalar geti ekki hækkað leigu eins og þeim sýnist heldur þurfa að hafa ástæður fyrir því eins og verðbólgu eða endurbætur. Að auki átti að koma á fót kæruleið fyrir leigjendur ef þeir lenda í vanda eða deilu við leigusala. Grundvöllur þessara krafna er annars vegar sú vitneskja að rétturinn til góðs húsnæðis á viðráðanlegum kjörum eru mannréttindi og eitt stærsta lífskjaramálið. Hins vegar sú staðreynd að leigjendur hafa verið ofurseldir leigusölum sínum á íslenskum húsnæðismarkaði og þurfa sérstaka vernd þar sem valdamisræmið er æpandi. Þessi barátta heldur áfram, enda hefur sagan sýnt að húsnæðismarkaðurinn hér á landi hefur farið ómjúkum höndum um leigjendur og kaupendur.

En það þarf meira að koma til og einn hluti loforða ríkisstjórnarinnar var aukið framboð á landi til bygginga en þar hefur flöskuhálsinn verið síðustu ár. Það vantar nokkur þúsund íbúðir nú þegar. Ekkert bólar á efndum á þessu loforði og tíminn vinnur ekki með okkur. Það er ekki flókið að spá fyrir um þörfina á húsnæði og því ótrúlegt hversu illa gengur að mæta þeirri þörf.

Kaup á húsnæði -- sem oftast fylgir mikil skuldsetning -- er ein stærsta ákvörðun sem fólk tekur í lífi sínu en því er oft gert að taka hana í þvingandi aðstæðum og á örskömmum tíma. Hin mikla hækkun sem hefur verið á húsnæðisverði þjónar aðeins stóreignafólki sem getur átt fleiri en eina eign, en slík eignasöfnun býr einnig til meiri spennu á húsnæðismarkaði. Í þessu samhengi þarf því að huga að hvers kyns reglusetningu sem getur ýtt undir eðlilegri húsnæðismarkað. Nú þegar ferðaþjónustan rís að nýju beinast spjótin að útleigu íbúða til ferðamanna, s.s. í gegnum AirBnB. Sú sprenging sem varð í slíkri útleigu fyrir Covid-faraldurinn hafði gríðarleg áhrif á húsnæðismarkað.

Nú í aðdraganda kosninga mun ekkert stjórnmálaafl komast hjá því að leggja fram stefnu og tillögur til lausna í húsnæðismálum og Alþýðusamband Íslands mun krefjast svara við spurningunni um hvernig húsnæðisöryggi allra verði tryggt. Þetta er eitt stærsta pólitíska viðfangsefni okkar tíma, eins og sænski forsætisráðherrann veit af biturri reynslu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24.06.2021.