Staðreyndir um jöfnuð og ójöfnuð

Í núverandi umræðu um kjaramál hefur kastljósið oftar en ekki beinst að ójöfnuði hér á landi og í hinum vestræna heimi. Alþýðusambandið hefur meðal annars gert þessari umræðu skil í pistlum sem birtir hafa verið hér á vefnum.[1]

Hafa verður í huga  að ójöfnuður þróast hægt yfir tíma og því er varhugavert að draga stórar ályktanir út frá þróun einstakra hagtalna. Svonefndur Gini stuðull er oft notaður sem mælikvarði á ójöfnuð í samfélögum. Stuðullinn tekur gildi á bilinu 0 – 1 þar sem 0 táknar að allir hafi sömu tekjur, og 1 þar sem einn einstaklingur fær allar tekjurnar.

Ójöfnuður mældur með Gini stuðli lækkaði á árunum eftir hrun líkt og sjá má á vef Hagstofunnar. Gini stuðullinn sem Hagstofan birtir er hinsvegar reiknaður eftir að tekið hefur verið tillit til skatta og tilfærslna. Jafnframt er ákveðin töf í útreikningum þar sem þeir byggja á skattagögnum, það er að segja Gini stuðull ársins 2013 er byggður á tekjum ársins 2012.

Túlka þarf þennan Gini mælikvarða varlega þegar kemur að því að meta hvort launajöfnuður (tekjujöfnuður) hefur aukist eða minnkað á liðnum árum, þar sem upptaka þrepaskipts skattkerfis, auðlegðarskatts og hækkun barna- og vaxtabóta á árunum eftir hrun var ætlað að draga úr ójöfnuði.

Sé Gini skoðaður án þessara áhrifa breytist myndin. Ójöfnuður hefur vaxið síðustu ár líkt og sést á gögnum OECD um Ísland hér að neðan. Líkt og hjá Hagstofunni eru nýjustu gögn OECD nokkurra ára gömul og því er ómögulegt að segja til um hvernig Gini-jöfnuður hefur þróast undanfarin þrjú ár. Við vitum hinsvegar að gerðar hafa verið miklar breytingar á skatta- og tilfærslukerfinu í tíð núverandi ríkisstjórnar sem að öðru óbreyttu auka ójöfnuð mældan með Gini eftir skatta og tilfærslur.

Aðrir mælikvarðar styðja hins vegar þá þróun að ójöfnuður fari vaxandi. Þar má vísa til ítarlegrar úttektar Alþjóðavinnumálastofnunar (ILO), Global Wage Report, þar sem ójöfnuður hérlendis hefur bæði vaxið þegar skoðað er hlutfall efstu og neðstu tíundar, en einnig ójöfnuður innan millistéttar en þá er skoðað hlutfallið milli efri og neðri millistéttar. Sama þróun birtist ef sömu mælikvarðar eru skoðaðir fyrir árin 2011 og 2012 í gögnum Ríkisskattstjóra.

Það er hinsvegar rétt að ójöfnuður er lítill á Íslandi í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega þegar tölur eru bornar saman við meginland Evrópu og Bandaríkin. Jöfnuður er hér í takt við Norðurlöndin, en  við þau  vilja Íslendingar helst bera sig saman við. Það er mikilvægt að horft verði til þess að varðveita þau lífsgæði sem felast í samfélagi jöfnuðar og félagslegs hreyfanleika. Jöfnun í gegnum skattkerfi gegnir þar lykilhlutverki. Veruleikinn sem blasir við mörgum ríkjum er að ójöfnuður hafi vaxið verulega undanfarna áratugi. Við þessu vara Alþjóðastofnanir á borð við OECD og IMF og benda nýlegar rannsóknir til þess að aukin ójöfnuður geti haft neikvæð áhrif á hagvöxt.