Staðið verði við fyrirheit um hækkun til þeirra lægst launuðu!

Á vef SGS segir að framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands (SGS) krefst þess að staðið verðið við þau fyrirheit að hækka laun kvennastétta innan heilbrigðisstofnana eins og gefin voru fyrirheit um í upphafi árs. Jafnlaunaátakið gerir ráð fyrir 4,8% hækkun til þeirra stétta sem skilgreindar eru sem kvennastéttir innan heilbrigðisstofnana og hafa nú þegar verið undirritaðir nýjir stofnanasamningar við einhverjar stofnanir sem tryggja slíka hækkun frá 1. mars.

Á Alþingi þann 19. júní sl. var málið til umræðu og greindi fjármálaráðherra þá frá því að ekki væru til fjármunir til þessa verkefnis en á sama tíma er verið að skerða tekjustofna ríkisins með lækkuðum álögum á einstaka atvinnugreinar. Þetta eru kaldar kveðjur til kvenna á sjálfan kvenréttindadaginn. Starfsgreinasambandið treystir því að fjármálaráðherra finni þrátt fyrir allt leiðir til að hrinda áformunum í framkvæmd svo notuð séu hans orð og það eigi við allar kvennastéttir innan heilbrigðisstofnana. Þá ber að minna á að samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið meðal félagsmanna aðildarfélaga SGS eru konur í umönnunarstéttum hjá hinu opinbera meðal þeirra sem lægst hafa launin á íslenskum vinnumarkaði. SGS skorar á ríkisstjórnina að standa við gefin fyrirheit til lægst launuðu stéttanna í landinu.