Spennandi ferðir í boði

Að venju mun félagið bjóða upp á þrjár spennandi ferðir sumarið 2019. Nánar má lesa um hverja ferð fyrir sig með því að smella á hlekkinn sem er fremst í viðkomandi ferð.

Allar nánari upplýsingar um ferðatilhögun og skráning í ferðirnar verður á skrifstofu félagsins á Akureyri, Skipagötu 14, sími 460 3600, frá fimmtudeginum 3. janúar 2019. Þá verður hægt að skrá sig í utanlandsferðina og í innanlandsferðina. Athugið að síðar verður auglýst hvenær byrjað verður að skrá í eins dags ferðina fyrir eldri félagsmenn.

  • Farið verður til Þýskalands, Austurríkis, Króatíu og Slóveníu 10. til 20. ágúst 2019, ef næg þátttaka fæst. Hámark 50 manns. Flogið verður frá Keflavík til Munchen og þaðan aftur til Keflavíkur. Farið verður til Zell am See og þar gist í eina nótt á Hotel der Schütthof. Næsta dag verður ekið suður á bóginn gegnum Slóveníu til Opatija í Króatíu þar sem gist verður í eina nótt á Hotel Bristol. Daginn eftir verður ekið áfram suður á bóginn til Biograd na Moru á Dalmatíuströnd við Adríahaf en þar verður dvalið í 5 nætur á Hotel Ilirija, góðu hóteli við höfnina. Frá Biograd verður farið í tvær dagsferðir. Annars vegar til gömlu borganna Split og Trogir og hins vegar í þjóðgarðinn Krka. Einnig verður farið til borgarinnar Zadar. Frá Biograd na Moru verður farið norður á bóginn til Bled í norðvestur Slóveníu þar sem gist verður í tvær nætur á Sava Hoteli Bled. Frá Bled verður ekið í gegnum Austurríki til München í Þýskalandi þar sem gist verður síðustu nótt ferðarinnar á Victor´s Residenz-HotelLeiðsögumaður verður Harpa Hallgrímsdóttir og fararstjóri Björn Snæbjörnsson.