Í frétt í Morgunblaðinu í dag kemur fram að miklar og hvassar umræður hafi farið fram um stöðu kjaramála á þingi Alþýðusambandsins í gær og að fundarmönnum hafi verið heitt í hamsi. Ræðumenn boðuðu harða kjarabaráttu í vetur, sérstaklega fulltrúar Starfsgreinasambandsins sem þátt tóku í umræðunum. Margir sem tóku til máls héldu því fram að tilraunin til að ná víðtækri samstöðu við gerð seinustu samninga um samræmda launastefnu, hefði mistekist því samið hafi verið við aðra hópa um mun meiri launahækkanir. Þá voru launahækkanir stjórnenda í fyrirtækjum mörgum ofarlega í huga og þær harðlega gagnrýndar og ekki síður boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpinu.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins, sagði að menn yrðu að læra af þessari reynslu og sagðist hann draga
stórlega í efa að menn tækju höndum saman við aðra hópa við gerð næstu kjarasamninga. Einstök landssambönd og félög
myndu frekar vinna sjálfstætt í komandi samningum. Björn sagði að krónutöluhækkanir en ekki prósentuhækkanir yrðu skýlaus
krafa félaganna í Starfsgreinasambandinu. Aðaláhersla yrði lögð á hækkun lægstu launa. Þá léki enginn vafi á
því að SGS myndi krefjast leiðréttingar fyrir sitt fólk til samræmis við þá sem sömdu um meiri hækkanir í seinustu
samningalotu, sérstaklega hjá ríki og sveitarfélögunum.
Björn sagði að það yrði kaldur vetur framundan á mörgum sviðum. „Ég ætla ekki að draga neitt undan. Það er ekki spurning
hvort það verða verkföll í vetur til að ná þessu fram heldur hvenær,“ sagði Björn. Hann sagði að verkalýðshreyfingin
ætti ekki lengur að semja við stjórnvöld um að draga til baka skerðingar og aðrar aðgerðir sem bitnuðu á launafólki. ,,Látum
stjórnvöld bara standa frammi fyrir sínum eigin gerðum. Við erum ekki að kaupa einhverja hluti af þeim sem við erum löngu búin að semja
um.“ Samkvæmt fréttinni í Morgunblaðinu töluðu fleiri þingfulltrúar á sömu nótum og Björn.