Í gær var stór dagur í sögu svæðisins er skrifað var undir samninga um gerð Vaðlaheiðarganga og um eftirlit með framkvæmdinni. ÍAV og svissneska verktakafyrirtækið Matri áttu lægsta tilboðið og er áætlaður kostnaður nú um 11,5 milljarðar króna. Stefnt er að því að taka göngin í notkun árið 2016. Göngin 7,5 kílómetra löng með vegskálum beggja vegna og munu stytta hringveginn um 16 kílómetra. Vinna hefst strax við undirbúning framkvæmda en reiknað er með að byrjað verði að sprengja í vor Eyjafjarðarmegin og í Fnjóskadal á næsta ári.
Einnig var skrifað undir samning milli Vaðlaheiðarganga hf. og EFLU verkfræðistofu um verkeftirlit með framkvæmdinni. EFLA gerði tilboð í verkið í samvinnu við GeoTek og Verkfræðistofu Norðurlands en fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu að 3-5 starfsmenn muni að jafnaði vinna að eftirlitinu á verktímanum.