Vert er að vekja athygli á eftirfarandi orðsendingu sem finna má á upplýsingavef ríkisskattstjóra vegna starfa erlendra manna hér á landi á grundvelli vinnuleigu, þjónustu - eða verktakasamninga.
Tilefni þessarar orðsendingar er að vekja athygli á skattalegum skyldum sem fylgja störfum erlendra manna hér á landi. Um þessi störf eru iðulega gerðir samningar sem eru með öðrum hætti en gengur og gerist og misbrestur er á að virt sé tilkynningarskylda til bærra yfirvalda. Nefna má þrenns konar form samninga sem einkum eru við- höfð í þessu sambandi. Í fyrsta lagi getur verið að erlendir starfsmenn séu hér að störfum á vegum erlendra starfsmannaleiga. Í öðru lagi hefur aukist að gerðir séu svokallaðir þjónustusamningar við erlend fyrirtæki um vinnu starfsmanna. Í þriðja lagi kemur fyrir að um starf sé gerður verktakasamningur beint við erlenda starfsmenn.
Þess misskilnings hefur oft gætt að erlendir menn sem starfa hér á landi, sér í lagi ef um er að ræða Evrópubúa sem koma hingað á svonefndri 90 daga reglu, sbr. reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, séu ekki skattskyldir hér á landi. Í skattalegu tilliti hefur þessi regla hins vegar enga þýðingu. Ekki hefur í jafnríkum mæli komið fram að þessir starfsmenn bera skattalegar skyldur hér á landi og þeir innlendu aðilar sem fá þá til starfa og greiða fyrir vinnu þeirra, beint eða óbeint, geta borið skattalegar skyldur og verið ábyrgir fyrir skattgreiðslum þeirra manna. Ríkisskattstjóri vill því benda á eftirfarandi meginreglur og sjónarmið sem hafa þarf í huga við almenna skattframkvæmd í þessu samhengi:
- Tekjur sem aflað er hér á landi fyrir störf eru skattskyldar og þeir sem þeirra tekna njóta eru jafnframt skattskyldir hér á landi óháð því hver greiðir þeim tekjurnar, nema í þeim undantekningartilvikum að við geta átt ákvæði tvísköttunarsamninga við heimaríki þeirra.
- Sé starfsmaður ráðinn á grundvelli samnings um útleigu á vinnuafli telst vinnuveitandinn (verkkaupinn) vera launagreiðandi ef starfsmannaleigan hefur ekki skattalega heimilisfesti hér á landi og er utan EES svæðisins. Við þessar aðstæður ber verkkaupinn, sem þá telst hinn raunverulegi vinnuveitandi, allar skyldur sem launagreiðandi samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald. Honum ber því að halda eftir staðgreiðslu af launum starfsmannanna ásamt því að greiða tryggingagjald af laununum. Jafnframt ber launagreiðandanum að standa skil á launaframtali og gera grein fyrir launagreiðslum á launamiðum samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
- Séu hinir erlendu starfsmenn hér á vegum starfsmannaleiga sem hefur staðfestu í EES ríki, EFTA ríki eða á Færeyjum hefur starfsmannaleigan stöðu launagreiðanda í skattalegu tilliti. Sinni starfsmannaleigan ekki skyldum sínum í þessu sambandi færist skyldan yfir á hið íslenska notendafyrirtæki. Sé starfsmannaleigan utan framangreindra ríkja ber íslenska notendafyrirtækið skyldur samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sama á við um svokallaða þjónustusamninga og verktakasamninga sé hið raunverulega innihald þeirra leiga á vinnuafli.
Skoða má alla orðsendinguna með því að smella hér.