Í hádeginu í gær rann út frestur til að skila inn lista eða tillögum um fólk í stjórnarsæti vegna kjörs stjórnar og trúnaðarráðs fyrir starfsárið 2021-2022. Ekki bárust tillögur eða listar aðrir en frá trúnaðarráði og teljast þeir félagsmenn sem trúnaðarráð hefur gert tillögu um sjálfkjörnir. Listi trúnaðarráðs tekur því við félaginu á næsta aðalfundi sem áætlað er að fram fari fimmtudaginn 25. mars nk. kl. 19:30 í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri. Ef Covid kemur í veg fyrir það verður fundurinn rafrænn.
Björn Snæbjörnsson mun því áfram verða formaður félagsins næstu tvö árin. Nýr ritari til næstu tveggja ára verður Gunnar Magnússon, þar sem Hrefna Björg núverandi ritari bauð sig ekki fram á ný. Sigurpáll Gunnarsson sem kosinn var meðstjórnandi til tveggja ára í fyrra hætti í stjórninni í lok síðasta árs þar sem hann var að skipta um starfsvettvang utan starfssviðs Einingar-Iðju. Meðstjórnandi til eins árs verður því Sunna Líf Jóhannsdóttir.
Mikil ánægja hefur ríkt með störf stjórnar félagsins í viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið undanfarin ár. Á hverju ári sér Gallup um framkvæmd slíkrar könnunar fyrir félagið þar sem 1.500 félagsmenn eru spurðir ýmissa spurninga, m.a. um viðhorf til stjórnar og þjónustu félagsins. Rúmlega 98% svarenda sögðust vera sáttir eða hvorki né er spurt var hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur við Einingu-Iðju, þar af merktu rétt tæplega 80% við að þau væru sátt við félagið. 97,7% merktu við ánægður eða hvorki né er spurt var hversu ánægður eða óánægður ertu með þjónustu Einingar-Iðju þegar á heildina væri litið. Þetta eru aðeins betri niðurstöður en á síðustu árum.