Sjálfkjörið í stjórn félagsins

Klukkan 12 á hádegi í dag, föstudaginn 24. febrúar, lauk skilafresti á listum eða tillögum um menn í stjórnarsæti vegna kjörs stjórnar og trúnaðarráðs fyrir starfsárið 2017-2018. Ekki bárust tillögur eða listar annar en frá trúnaðarráði og teljast þeir félagsmenn sem trúnaðarráð hefur gert tillögu um sjálfkjörnir. Listi trúnaðarráðs tekur því við félaginu á næsta aðalfundi, sem fram fer fimmtudaginn 6. apríl nk. kl. 19:30 í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri. 

Björn Snæbjörnsson mun því áfram verða formaður félagsins en Margrét H. Marvinsdóttir mun taka við starfi ritara stjórnar af Vilhelmi Adolfssyni.

Mikil ánægja hefur ríkt með störf stjórnar félagsins í viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið undanfarin ár. Á hverju ári sér Gallup um framkvæmd slíkrar könnunar fyrir félagið þar sem 1.500 félagsmenn eru spurðir ýmissa spurninga, m.a. um viðhorf til stjórnar og þjónustu félagsins.