SÍMEY - allt að fara í fullan gang á haustönn

Á vef SÍMEY segir að starfsemin sé nú að fara í fullan gang á haustönn með fjölbreyttri starfsemi. Opið er fyrir umsóknir um styttri námskeið og lengri námsbrautir.

Síðastliðið vor setti Covid 19 heimsfaraldurinn verulegt strik í reikninginn í starfsemi Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar eins og hjá öðrum menntastofnunum í landinu og var húsnæði SÍMEY lokað frá 16. mars til 4. maí vegna sóttvarnaráðstafana. Núna í byrjun haustannar markast starfsemi SÍMEY eðlilega áfram af reglum yfirvalda um sóttvarnir og fjarlægðamörk.

Sem fyrr er starfsemi SÍMEY fjölbreytt, miðstöðin veitir einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum víðtæka þjónustu varðandi starfsþróun og sí- og endurmenntun.

Þrátt fyrir sóttvarnareglur er námsframboð eins og áður fjölþætt, í boði er fjöldi styttri námskeiða og lengri námsbrautir. Bæði er um að ræða námskeið sem eru kennd á vefnum en einnig verða námsbrautir og styttri námskeið í stað- og lotunámi. Síðastliðið vor færðist hluti námskeiða í fjarnám á vefnum og fékkst þá ágætis reynsla af því fyrirkomulagi. Til urðu ný vefnámskeið og þeim verður fram haldið í vetur.

Nú þegar eru fyrstu námskeiðin á haustönn hafin og önnur eru í þann veginn að hefjast. Almennt stefnir í góða aðsókn í nám í SÍMEY en allir sem hafa velt fyrir sér að skrá sig í nám eru hvattir til þess að hafa samband við SíMEY og/eða skrá sig beint á námskeiðin í gegnum heimasíðu SÍMEY. Hér er yfirlit yfir námskeið sem verða í boði á næstu vikum. Ný námskeið bætast stöðugt við og því er fólki bent á að fylgjast vel með á heimasíðu SÍMEY og á facebook síðu SÍMEY.

Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir að mikill hugur sé í starfsfólki SÍMEY að starfið gangi vel í vetur við þær aðstæður sem nú ríki í samfélaginu vegna heimsfaraldurs Covid 19. Allir leggist á eitt við að allt gangi sem best fyrir sig. Framhaldsfræðslan í landinu, þ.m.t. SíMEY, fylgi sömu sóttvarnareglum og framhaldsskóla- og háskólastigið og viðhlítandi ráðstafanir hafi verið gerðar hjá SÍMEY. Húsnæði miðstöðvarinnar að Þórsstíg 4 hafi þannig verið skipt upp í þrjú sóttvarnasvæði og unnið samkvæmt fyrirmælum Almannavarna um fjarlægðarmörk o.fl. Að ýmsu þurfi að huga í þessu sambandi. Þannig verði t.d. tryggt að nemendur í húsinu á hverjum tíma fari aldrei allir á sama tíma á kaffistofuna í frímínútum. Valgeir segir að vissulega sé margt nokkurri óvissu háð í upphafi annar en þessa dagana séu málin að skýrast æ betur dag frá degi. Hann segir að þar sem því verði við komið færist nám að einhverju leyti í lotunám/fjarnám – t.d. FélagsliðabrúLeikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú og Sölu- markaðs- og rekstrarnám – en í öðrum tilfellum sé ekki unnt að kenna nemendum í gegnum vefinn og því verði þau námskeið að öllu leyti í staðnámi.

Félagsmenn í stéttarfélaginu Eining-Iðju hjá ríki og sveitarfélögum athugið!
Vert er að minna á að starfsmenntasjóðirnir Sveitamennt og Ríkismennt greiða námskeiðsgjald vegna þátttöku almennra starfsmanna sveitarfélaga og ríkisins. Þetta á einnig við stofnanir ríkis og sveitarfélaga sem eru aðilar að Sveitamennt og Ríkismennt. 

Fræðsluátak framlengt til ársloka!
Fyrr á árinu ákváðu stjórnir Landsmenntar, Ríkismenntar og Sveitamenntar að rýmka úthlutunarreglur einstaklingsstyrkja í ákveðinn tíma. Átakið átti að gilda frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem hefjast innan þessa sama tímaramma. Nú hafa stjórnir sjóðanna ákveðið að framlengja átakið og mun það gilda til 31. desember nk. Sjá nánar hér