SGS með tvo fundi í Borgarfirði

Í vikunni mun Starfsgreinasambandið standa fyrir tveimur fundum á Hótel Bifröst í Borgarfirði, annars vegar fundi fyrir ungliða og hins vegar formannafundi. Eining-Iðja mun auðvitað eiga fulltrúa á þessum fundum. Björn formaður og Anna varaformaður munu sitja formannafundinn.  Sigurpáll Gunnarsson og Guðbjörg Helga Andrésdóttir munu verða fulltrúar félagsins á ungliðafundinum. Þau komu í gær heim frá Brussel þar sem þau voru að klára þriðja hluta námskeiðsins "Ungir leiðtogar" en markmið þess er að fræða um verkalýðshreyfinguna og efla ungt fólk sem leiðtoga hvort sem er á vinnustaðnum eða á breiðari vettvangi.

Dagana 30. og 31. maí munu um 25 ungliðar koma saman til að fræðast um málefni verkalýðshreyfingarinnar, framtíð vinnumarkaðarins o.fl. Um er að ungt fólk á aldrinum 18 til 33 ára sem öll eiga það sameiginlegt að vera félagsmenn aðildarfélaga SGS og að hafa áhuga á að taka virkan þátt í starfi sinna stéttarfélaga sem og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar.

Dagana 31. maí og 1. júní heldur SGS svo útvíkkaðan formannafund, en til fundarins eru boðaðir formenn aðildarfélaga sambandsins auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi. Fundurinn hefst á hádegisverði formanna og áðurnefndra ungliða, en í framhaldinu munu fulltrúar ungliðanna gera grein fyrir fundarstörfum sínum dagana á undan ásamt því að ræða eflingu ungs fólks innan hreyfingarinnar. Fjölmörg önnur mál eru á dagskrá fundarins, en dagskrána í heild sinni má sjá hér að neðan.

31. maí 2018

12:30    Sameiginlegur hádegisverður með ungliðum
13:30     Ungliðar kynna niðurstöðu ungliðafundarins
14:00    Stefán Ólafsson prófessor kynnir niðurstöður rannsókna sinna á ójöfnuði á Íslandi
15:30     Ársreikningar SGS 2017 kynntir, farið yfir erlend samskipti Starfsgreinasambandsins o.fl.
16:30     Fundi frestað

1. júní 2018
09:00     Skipulag hvers félags í aðdraganda kjarasamninga
10:30     Í lagi – vottun fyrirtækja
11:00     Eftirlit stéttarfélaga og barátta gegn félagslegum undirboðum í sumar
12:00     Önnur mál
12:30     Fundarslit og hádegisverður