Fulltrúar aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins voru nýlega á ferð um Noreg og Danmörku til að kynna sér kjarasamningsgerð og uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar þar í löndum. Björn formaður, Anna varaformaður og Sigríður formaður Opinberu deila félagsins voru á meðal fulltrúa SGS. Hér fyrir neðan má lesa smá umfjöllun um kjarasamningsumhverfið í Noregi.
Í Noregi eru gerðir kjarasamningar á tveggja ára fresti og næstu samningar eru árið 2018. Þetta er ljóst og allir vinna samkvæmt þessum áherslum. Misjafnt er hvort að landssamböndin innan LO (Norska ASÍ) fara sameinuð í viðræðurnar eða sitt í hvoru lagi. Þegar farið er saman er meiri kraftur í kröfunum en á móti kemur að þá er erfiðara að ná fram sérkröfum. Iðnaðurinn semur iðulega fyrst og setur fyrirmyndina fyrir svigrúmið í kjarasamningum fyrir aðra hópa. Þetta er svipað og á hinum Norðurlöndunum. Kjarasamningar á hinum opinbera markaði lúta öðrum lögmálum og laga sig eftir því sem samið er um á hinum almenna markaði. Samkvæmt Knut Öygaard, sem er einn af þeim sem er ábyrgur fyrir kjarasamningsgerð innan Fellesforbundet (systursamtök SGS), eru kröfur fyrir kjarasamninga unnar í hverju félagi fyrir sig og því síðan safnað saman í kröfugerð fyrir samningana, svipað og gert er innan Starfsgreinasambandsins. Formið á kjaraviðræðunum er í föstum skorðum. Þetta er meðal þess sem kom fram í heimsókn SGS til Noregs um miðjan janúar.
Áhersla er lögð á aðkomu trúnaðarmanna í samningsferlinu. Í máli Knut kom fram að trúnaðarmenn kæmu beint að samningsferlinu í gegnum þing þar sem áherslur þeirra koma fram meðal annars í gegnum fagráð. Það reyndi töluvert á trúnaðarmannakerfið í verkfallsaðgerðum hótel- og veitingageiranum og hafa stéttarfélögin lagt meiri áherslu á þjálfun trúnaðarmanna.
Byrjað er að ræða saman í febrúar á grunni kröfugerðarinnar og kjarasamningur liggur fyrir í apríl. Fjórtán dögum eftir að slitnar uppúr viðræðum eru aðilar sjálfkrafa komnir í vinnudeilu. Þá er hægt að skipuleggja verkfall og það fer eftir því hvað átök taka langan tíma í undirbúningi hvenær verkfall brestur á. Ákvörðun um slíkt er ekki borin undir félagsmenn heldur tekin miðlægt. Á lokametrum viðræðna kemur ríkið iðulega að borðinu og eru þá rædd mál eins og lífeyrismál, félagsleg undirboð, menntamál og efnahagsmál.
Eftir að iðnaðurinn, þ.e. alþjóðlegar samkeppnisgreinar, hafa samið er komið að byggingariðnaðinum og svo koll af kolli og hver grein tekur 2-3 daga í viðræður. Eftir að samningar liggja fyrir fara þeir í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna. Ef samningarnir eru felldir brestur sjálfkrafa á verkfall fjórum dögum síðar. Það er hins vegar mjög óalgengt að samningar séu felldir og iðulega er góð þátttaka í atkvæðagreiðslu. Þegar helmingur samningstímans er liðinn er gert „milliuppgjör“ þar sem farið er yfir stöðuna og tekist á um krónur og aura. Stóri samningurinn hjálpar oft minni samningum að ná fram betri niðurstöðu en ekki er sjálfgefið að allir haldi sér innan rammans. Það eru helst minni félög bæði innan og utan LO sem reyna að sprengja rammann. Rannsóknir LO benda þó til að flestir haldi sig innan rammans.
Í aðalkjarasamningunum er samið um hvernig eigi að gera staðbundna samninga. Algeng er að um 25% af launahækkunum fáist í gegnum aðalkjarasamning og 75% er skilið eftir til að semja um í staðbundnum samningum. Þá liggur í hlutarins eðli að þar sem trúnaðarmannakerfið er veikt og staðbundin félög illa í stakk búin til samninga nást jafnvel ekki staðbundnir samningar. Þetta á meðal annars við í hótel- og veitingagreinunum.