SGS: Fréttir af kjaramálum

Á heimasíðu Starfsgreinasambands Íslands má finna eftirfarandi frétt af kjaramálum: Starfsgreinasamband Íslands lagði fram kröfur sínar um síðustu mánaðarmót og byggðust þær á kröfugerðum frá aðildarfélögunum og niðurstöðu samninganefndarinnar. Í samninganefndinni eiga sæti formenn allra aðildarfélaga SGS sem veitt hafa umboð, þ.e. félög utan höfuðborgarsvæðisins. SGS hefur alltaf talað fyrir því að ef launafólk á að sýna varkárni í samningum og freista þess að halda niðri verðbólgu verða aðrir að vera tilbúnir í það líka. Boðaðar hækkanir ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga á þjónustugjöldum auk hækkandi verðs á vöru og þjónustu eykur ekki líkurnar á því að samningar náist „á hófsömum nótum.“

Samninganefnd ASÍ fór á fund ráðherra á föstudaginn síðasta og hefur mátt heyra í kjölfarið vilja til að koma til móts við lægst launaða fólkið í formi skattalækkana. Eftir stendur að vita hvaða tillögur verða lagðar fyrir og hvernig sveitarfélögin ætla að liðka fyrir kjarasamningum í gegnum verðskrár sínar: „Við erum að skoða okkar stöðu en framhaldið ræðst mikið af því hvað stjórnvöld og ýmsir aðrir gera næstu daga,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins.