SGS - Fræðsludagur félagsliða

Starfsgreinasamband Íslands boðaði til fræðslufundar fyrir félagsliða af öllu landinu þann 22. nóvember síðastliðinn. Mikil ásókn var á fundinn eins og jafnan er, þar á meðal fóru tveir fulltrúar frá félaginu, en þetta er í fjórða sinn sem SGS heldur slíkan viðburð. Að þessu sinni var lögð áhersla á hópastarf, hvernig félagsliðar geti styrkt sig félagslega og faglega auk þess að styrkja stöðu stéttarinnar út á við. Rúmlega 40 félagsliðar tóku þátt í fræðsludeginum og færri komust að en vildu. Það var ofarlega í huga félagsliða að efla samstöðuna, jafnvel með því að sameinast í eitt stéttarfélag, fá löggildingu á stéttinni líkt og aðrar heilbrigðisstéttir eru með, kynna betur hvað félagsliðar gera og auka menntun og fræðslu. Á fræðsludeginum var framhaldsnámið í Borgarholtsskóla kynnt betur, farið var yfir hlutverk félagsliða í breyttri velferðarþjónustu og fjallað um hvernig megi koma í veg fyrir kulnun í starfi.