SGS - erindrekstur um land allt

Forysta Starfsgreinasambandsins  hélt áfram erindrekstri nú eftir áramótin og á síðustu tveimur dögum hafa Björn Snæbjörnsson formaður SGS, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir varaformaður SGS og Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS heimsótt fjögur aðildarfélög. Þetta eru félögin Hlíf í Hafnarfirði, Drífandi í Vestmannaeyjum, Verkalýðsfélag Vestfjarða á Ísafirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur. Auk hefðbundinna umræða um stöðu Starfsgreinasambandsins og framtíð hefur fundarmönnum orðið tíðrætt um forsendur kjarasamninga og endurskoðun í febrúar og að sjálfsögðu hefur gefist góður tími til að fjalla um stöðu landverkafólks í sjómannaverkfallinu. Nú hefur þríeykið heimsótt 17 aðildarfélög af 19 og er ætlunin að ljúka yfirferðinni í byrjun febrúar. Eftir það verður unnið úr öllum þeim fjölmörgu ábendingum og hugmyndum sem hafa safnast í sarpinn.

Í Vestmannaeyjum var auk hefðbundins stjórnarfundar boðað til almenns félagsfundar vegna stöðu starfsfólks í fiskvinnslu og er þungt í fólki hljóðið en samstaða með sjómönnum áberandi.