Baráttan gegn Covid 19 snýst eðlilega fyrst og fremst um heilsuvernd og svo viðbrögð við efnahags- og félagslegum þáttum. Fylgifiskur svona ástands er óvissa og óöryggi. Margir standa frammi fyrir því að missa vinnuna, skerða starfshlutfall eða fara í sóttkví. Við slíkar aðstæður er lykilatriði að samfélagið grípi til skynsamlegra og réttlátra aðgerða, þar sem jöfnuður, sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð eru höfð að leiðarljósi.
Frekari aðgerðir nauðsynlegar
Ríkisstjórnin kynnti um helgina fyrstu efnahagsaðgerðirnar til að bregðast við afleiðingum faraldursins. Áður höfðu tvö frumvörp verið kynnt til að styðja við fólk í skertri vinnu eða sóttkví. Verkalýðshreyfingin gerði verulegar athugasemdir við þau, niðurstaða aðgerðanna varð betri en frumvörpin gáfu til kynna og greinilega var hlustað á sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar við undirbúninginn.
Engu að síður er ljóst að meira þarf að koma til svo að forðast megi fjöldauppsagnir með óhjákvæmilegum fjárhagserfiðleikum heimila landsins. Verkalýðshreyfingin mun þrýsta á um slíkar aðgerðir.
Stjórnvöld hlusti á launafólk
Þegar hriktir í stoðum atvinnulífsins með tilheyrandi atvinnumissi er gríðarlega mikilvægt að varðveita formlegt ráðningarsamband vinnuveitenda og launþega í þeim aðgerðum sem ákveðnar verða á næstunni.
Kjarasamningar og þau afkomutryggingarkerfi sem launafólk hefur barist fyrir, eru þær varnir sem verða að halda, svo sem ráðningarsambandið.
Einmitt þess vegna leggur verkalýðshreyfingin áherslu á að stjórnvöld hlusti gaumgæfilega á sjónarmið launafólks og taki tillit til þeirra, hvort sem um er að ræða aðgerðir til lengri eða skemmri tíma.
Markmiðið stjórnvalda verða að miðast við að tryggja grunnstoðirnar heilbrigðis- mennta- og félagsmálakerfisins með velferð allra í huga.
Alþýðusamband Íslands hefur þegar bent á nokkrar nauðsynlegar leiðir til þess að milda afleiðingar faraldursins. Ekki var orðið við nokkrum af mikilvægum ábendingum sem sambandið telur nauðsynlegar og áfram verður þrýst á stjórnvöld um að jöfnuður og sanngirni verði rauði þráðurinn í öllum ákvörðununum.
Sanngirni og sveigjanleiki
Það eru fleiri aðilar en ríkisvaldið sem þurfa að taka stórar ákvarðanir vegna afleiðinga veirunnar svo sem sveitarfélög, fyrirtæki og fjármálastofnanir.
Það er ekki óeðlilegt að stjórnvöld beini með ákveðnum hætti tilmælum til þessara aðila að sýna sanngirni og sveigjanleika varðandi greiðslufrest á meðan mesta óvissan ríkir, svo sem að gefa fólki kost á að dreifa greiðslum og innheimta ekki dráttarvexti.
Að sama skapi gerir verkalýðshreyfingin þær kröfur að ríkisábyrgð verði veitt þeim heimilum sem lenda í greiðsluerfiðleikum, verði ákveðið að veita fyrirtækjum slíka ábyrgð.
Sama gildir þegar gefinn er kostur á að fresta greiðslu opinberra gjalda vegna greiðsluerfiðleika. Standi slíkt fyrirtækjum til boða, hlýtur hið sama að gilda um heimili landsins.
Fasteignagjöld eru stór liður í bókhaldi heimilanna, sveitarfélögin ættu hiklaust að mæta íbúum sínum með því að gefa kost á að fresta greiðslum.
Sanngirni og sveigjanleiki skipta sköpum á slíkum óvissutímum.
Hikið ekki við að hafa samband
Í ljósi þeirra ráðlegginga sem sóttvarnarlæknir hefur gefið vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar, hefur verið ákveðið að skipta starfsfólki Einingar-Iðju í tvo hópa. Þetta á líka við um VIRK ráðgjafana sem eru á skrifstofunni. Á meðan annar hópurinn sinnir störfum sínum á skrifstofunni mun hinn hópurinn starfa heima. Þetta er gert til þess að minnka líkurnar á því að loka þurfi skrifstofunni alveg. Opnunartímar á Akureyri, Dalvík og í Fjallabyggð haldast óbreyttir.
Fjölda erinda er hægt að sinna í gegnum síma og með tölvupósti. Á heimasíðu félagsins eru margvíslegar upplýsingar, með því að nota síma og tölvupóst – þegar unnt er – minnkum við líkur á að veiran breiðist hraðar út en efni standa til.
Starfsfólk Einingar-Iðju leggur sig fram um að veita félagsmönnum sínum góða og faglega þjónustu, hikið ekki við að hafa samband. Samstaðan er okkar sterkasta vopn, eins og alltaf.
Við erum öll almannavarnir.
Björn Snæbjörnsson
formaður Einingar-Iðju