Í gær skrifaði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, undir samstarfssamning við Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Markmið samningsins er að skapa enn fleiri möguleika fyrir félagsmenn Einingar-Iðju til að sækja sér fræðslu og auka við starfstengda hæfni sína. „Félagið hefur átt mjög gott samstarf við SÍMEY til fjölda ára en með þessum samningi er komin meiri festa í samstarfið. Fulltrúar frá SÍMEY sátu t.d. nýverið fund með fræðslunefnd félagsins þar sem farið var yfir ýmis mál tengd námskeiðahaldi. Slíkir fundir verða haldnir reglulega héðan í frá og mun SÍMEY kappkosta við að endurspegla þær þarfir er birtast innan félagsins varðandi símenntun. Þá hefur SÍMEY líka tekið að sér að halda utan um dyravarðanámskeið sem félagið hefur verið með í samstarfi við Lögregluna á Norðurlandi eystra undanfarana áratugi. Ég bind miklar vonir við þetta samstarf og tel það til heilla fyrir okkar félagsmenn,“ segir Björn.
SÍMEY býður upp á fjöldamörg námskeið sem eru bæði starfstengd og tengd áhugamálum hvers og eins. Fjölmörg námskeið og námsleiðir eru í boði og geta áhugasamir m.a. kíkt hér til að sjá hvað er í boði.
Vert er að minna félagsmenn sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum að starfsmenntasjóðirnir Sveitamennt og Ríkismennt greiða námskeiðsgjald vegna þátttöku almennra starfsmanna sveitarfélaga og ríkisins. Þetta á einnig við um stofnanir ríkis og sveitarfélaga sem eru aðilar að Sveitamennt og Ríkismennt.