Samstarf um mennta og vinnumarkaðsmál

Á vef ASÍ er að finna frétt þar sem fjallað er um samstarf um mennta og vinnumarkaðsmál:

Með yfirlýsingu Ríkisstjórnar Íslands í tengslum við kjarasamninga í maí 2011 voru gefin fyrirheit um aðgerðir í vinnumarkaðs- og menntamálum. Annars vegar var um að ræða bráðaaðgerðir, en hins vegar aðgerðir til þriggja ára. Það er sameiginlegt mat stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að samstarfið hafi gengið vel og framkvæmdin skipt verulegu máli. Nú þegar bráðaaðgerðum er að ljúka með nýju átaksverkefni til sköpunar starfa, Liðsstyrk, er eðlilegt að meta stöðuna og horfa fram á veg.

Strax haustið 2011 var tveimur bráðaaðgerðum hrint í framkvæmd, þ.e.a.s. opnun framhaldsskólans fyrir alla yngri en 25 ára og ný námstækifæri fyrir 1.000 atvinnuleitendur (Nám er vinnandi vegur) til þriggja ára. Kostnaður var samtals áætlaður 1.240 m.kr., 440 m.kr. vegna þess fyrrnefnda og 800 m.kr. vegna þess síðarnefnda. Að auki var gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi þeim atvinnuleitendum sem ekki færu í lánshæft nám styrki til framfærslu og var áætlaður kostnaður vegna þess 400 m.kr. á ári. Vorið 2012 var síðan 1.500 atvinnuleitendum boðið störf sem fjármögnuð voru af hluta með atvinnuleysisbótum (Vinnandi vegur). Stýrihópi með aðilum vinnumarkaðarins undir sameiginlegri formennsku beggja ráðuneyta var settur upp til að annast framkvæmd þessa þáttar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.

Vegna aðgerða til þriggja ára var lögð áhersla á endurmenntun á vinnumarkaði og framhaldsfræðslu. Verulegir fjármunir voru settir í sérstakan þróunarsjóð til að efla starfstengd nám á framhaldsskóla- og háskólastigi og vinnustaðanámssjóð. Einnig var lögð áhersla á að gera skil framhaldsfræðslu- og framhaldsskóla sveigjanlegri og á aukið samstarf fyrirtækja- og skóla um starfstengt nám. Það er sameiginlegt mat stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að samstarf um framkvæmd þessa þáttar í umræddri yfirlýsingu hafi gengið vel og framkvæmd þeirra skipt verulegu máli. Eðlilegt er hins vegar nú þegar bráðaaðgerðum er að ljúka með nýju átaksverkefni til sköpunar starfa, Liðsstyrk, að meta stöðuna og horfa fram á veg.

Hér má sjá minnisblaðið frá Mennta- og menningarmálaráðherra og velferðarráðherra til ASÍ í heild sinni.