Anna Júlísdóttir, varaformaður Einingar-Iðju, ritar grein í nýjasta tölublað Akureyri vikublaðs þar sem hún fjallar m.a. um lýðræðislegan undirbúning kjaraviðræðnanna og mikilvægi þess að standa saman þegar á reynir. Anna skorar jafnframt á norðlenska atvinnurekendur að tjá sig opinberlega um kröfugerð SGS. Greinina í heild sinni má lesa hér að neðan.
Kjarasamningar renna senn út og verkalýðsfélög hafa á undanförnum mánuðum undirbúið kröfugerðir sínar vegna komandi kjaraviðræðna. Starfsgreinasamband Íslands fer með samningsumboð fyrir sextán aðildarfélög, þeirra á meðal er Eining-Iðja.
Kröfurnar mótuðust á fundum í félögunum og á vinnustöðum, og efnt var til viðhorfskannana. Þannig gafst öllum félagsmönnum kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og hafa áhrif. Eining-Iðja efndi í byrjun ársins til sex funda á félagssvæði sínu, þar sem kastljósinu var sérstaklega beint að kjaramálum. Í kjölfarið var svo haldinn fjölmennur fundur í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Þar voru saman komnir félagsmenn sem sitja í samninganefnd félagsins og trúnaðarráði, auk þeirra trúnaðarmanna sem ekki sitja í þessum nefndum. Áður hafði Capacent gert viðamikla könnun meðal félagsmanna um kjaramál og fleira.Vandaður og lýðræðislegur undirbúningur kjaraviðræðnanna skiptir höfuðmáli, enda snúast viðræðurnar um sjálfa lífsafkomuna. Það er því mikið í húfi.
Atvinnurekendur skelltu í lás
Skemmst er frá því að segja að hljóðið var þungt í atvinnurekendum,
daginn sem Starfsgreinasambandið kynnti kröfugerð sína. Sambandið fer fram á að miða krónutöluhækkanir við að
lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára. Einnig að launatöflur verði endurskoðaðar
þannig að starfsreynsla og menntun verði metin til launa, vaktaálag verði endurskoðað, desember- og orlofsuppbætur hækki, lágmarksbónus
verði tryggður í fiskvinnslu og ný starfsheiti skilgreind í launatöflu.
Atvinnurekendur hreinlega skelltu í lás og sögðu engan grundvöll til viðræðna, allt færi á hausinn í þjóðfélaginu með tilheyrandi óðaverðbólgu, verði gengið að kröfunum. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fór mikinn í fjölmiðlum, en til þessa hafa stjórnendur fyrirtækja þagað. Gagnlegt væri að heyra afstöðu talsmanna norðlenskra fyrirtækja til krafnanna. Starfsgreinasambandið hefur nú vísað sanngjörnum kröfum sínum til sáttasemjara, þar sem viðsemjandinn telur engar forsendur fyrir beinum viðræðum.
Dagvinnulaunin 30% lægri á Íslandi
Íslendingar máta sig gjarnan við hin Norðurlöndin. Samkvæmt nýrri
úttekt á reglulegum dagvinnulaunum á almennum vinnumarkaði í þessum löndum kemur í ljós að munurinn er áberandi minni
á dagvinnulaunum meðal tekjuhærri hópanna en hjá þeim tekjulægri.
Mestur munur á dagvinnulaunum er hins vegar gagnvart verkafólki og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki. Hér á landi eru dagvinnulaun verkafólks allt að 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Þessar tölur tala sínu máli og sýna svart á hvítu að íslenskt verkafólk á langt í land til að ná dagvinnulaunum í þeim löndum sem við gjarnan miðum okkur við. Þess vegna hljóta kröfur Starfsgreinasambandsins að teljast eðlilegar og sanngjarnar. Ég skora á norðlenska atvinnurekendur að tjá sig opinberlega um kröfugerðina.
Verkfallsstjórn skipuð
Samstaða skiptir höfuðmáli og það er hugur í félögum Einingar-Iðju. Í
nýlegri könnun Capacent sögðust 65% aðspurðra félaga tilbúnir í verkfallsaðgerðir til að knýja á um bætt kjör.
Félagið hefur þegar skipað verkfallsstjórn sem meðal annars hefur það verkefni að koma með tillögur að aðgerðum til að
ýta á eftir sanngjörnum kröfum um hækkun launa. Með hækkandi sól opnast augu atvinnurekenda vonandi fyrir nauðsyn þess að
rétta hlut verkafólks.
Þurfi að grípa til aðgerða er ábyrgðin alfarið Samtaka atvinnulífsins. Almenningur stendur með verkafólki, enda grundvallaratriði að fólk geti lifað af dagvinnulaunum.
Anna Júlíusdóttir varaformaður Einingar-Iðju