Samstaða skilar verkafólki árangri

Í Vikudegi í dag má m.a. finna grein eftir Björn Snæbjörnsson formann félagsins. Greinina má lesa hér fyrir neðan.

Samstaða skilar verkafólki árangri

Eins og kunnugt er, samþykkti formannafundur Alþýðusambands Íslands að segja ekki upp gildandi kjarasamningum. Þetta varð niðurstaðan eftir að formenn aðildarfélaganna höfðu kannað vilja félagsmanna til uppsagnar, hver í sínu baklandi. Undirritaður, sem er formaður Einingar-Iðju, greiddi atkvæði gegn uppsögn samninganna, enda lá fyrir skýr afstaða trúnaðarráðs félagsins til þessa máls. Í raun má segja að með þessari niðurstöðu formannafundarins hafi verið ákveðið að láta núverandi kjarasamning renna sitt skeið, til áramóta.

Skýr afstaða trúnaðarráðs

Samkvæmt lögum Einingar-Iðju ber 100 manna trúnaðarráð félagsins ábyrgð á kjarasamningagerð. Áður en formannafundur ASÍ tók afstöðu til gildandi kjarasamninga, var trúnaðarráðið því kallað saman til fundar, þar sem leynileg atkvæðagreiðsla fór fram eftir ítarlegar umræður. 

Skemmst er frá því að segja að mikill meirihluti ráðsins samþykkti að segja ekki upp gildandi kjarasamningum. Fundur trúnaðarráðs var vel sóttur og um 75% fundarmanna greiddu atkvæði á móti því að segja upp samningunum. Niðurstaðan var með öðrum orðum skýr og því féll atkvæði formanns félagsins á fyrrgreindum formannafundi ASÍ eins og fyrr segir.

Rétt er að taka fram að áður en boðað var til trúnaðarráðsfundarins, höfðu kjaramálin verði rædd ítarlega á fundum svæðisráða og öðrum fundum á vegum félagsins. 

Hyggilegra að tryggja réttindi

Á almennum félagsfundum og í trúnaðarráði kom berlega í ljós að fullt tilefni væri til uppsagnar kjarasamningsins. Úrskurðir kjararáðs voru harðlega gagnrýndir, svo og hækkanir á launum æðstu stjórnenda banka og ýmissa stofnana.

Á móti var bent á að ekki eru margir mánuðir eftir af gildandi samningum og að  tryggð væri 3% almenn launahækkun 1. maí og rúmlega 7% hækkun lágmarkslauna, þannig að þau verði 300 þúsund krónur.

Það væri því hyggilegra að tryggja þessi réttindi og nota tímann til hausts til að móta kröfugerð og undirbúa komandi kjaraviðræður.

Í síðustu kjaraviðræðum lagði Starfsgreinasamband Íslands áherslu á að lágmarkslaunin verði 300 þúsund krónur á mánuði. Það markmið verður að veruleika 1. maí nk. 

Brýnt að nýta tímann vel

Aðalfundur Einingar-Iðju verður haldin 22. mars klukkan 19:30 í Hofi á Akureyri.  Í kjölfarið verður samninganefnd félagsins kölluð saman, en í henni eru um 50 fulltrúar.

Það segir sig sjálft að samninganefndin þarf að halda vel á spilunum, fyrsta verkið verður að skipuleggja vinnuna við mótun og gerð kröfugerðar félagsins.

Í þeirri vinnu skiptir höfuðmáli að ná til sem flestra félagsmanna. Eining-Iðja hefur alltaf kappkostað að kalla eftir áliti félagsmanna. Boðað verður til funda og ítarlegar skoðanakannanir gerðar.

Þegar kröfugerðin liggur fyrir, verður væntanlega tekin afstaða til þess hvort félagið ákveður að vera í samfloti með öðrum félögum í Starfsgreinasambandi Íslands.

Það er því mikil vinna framundan og brýnt er að nýta tímann vel. 

Hörð kjarabarátta í farvatninu

Miðað við svör vinnuveitenda í tengslum við komandi kjaraviðræður, getur farið svo að kjarabaráttan verði harðari en oft áður.

Góður undirbúningur er lykillinn að kröftugri kjarabaráttu. Samstaða skilar árangri, það hefur margsinnis sýnt sig. Ég hvet því félagsmenn til að taka virkan þátt í félagsstarfi Einingar-Iðju.

Það ríkir góðæri í landinu og verkafólk á að njóta þess.

Ekki bara topparnir og sjálftökuliðið í þjóðfélaginu.

 

Björn Snæbjörnsson

formaður Einingar-Iðju.