Fyrr í dag gekk Eining-Iðja frá samningi við Sjúkrahúsið á Akureyri vegna jafnlaunaátaks sem fyrrverandi ríkisstjórn ákvað í lok janúar að ráðast í. Þetta er annar samningurinn sem félagið gerir vegna jafnlaunaátaksins en áður var búið að semja við Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar. „Nú erum við búin að ganga frá samningi við bæði fyrirtækin á svæðinu sem átákið nær yfir og er það ánægjulegt,“ sagði Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, eftir að seinni samningurinn var undirritaður.
Samningurinn sem undirritaður var í dag nær yfir þá starfsmenn sjúkrahússins sem eru félagsmenn Einingar-Iðju. „Þetta þýðir þriggja launaflokka hækkun eða um 4,8% og gildir hækkunin frá 1. mars sl. Fyrrverandi ríkisstjórn ákvað fyrr á árinu að strax ætti að ráðast í jafnlaunaátak með aðgerðum sem beinast að því að rétta hlut starfsstétta þar sem konur eru í miklum meirihluta. Hverju fyrirtæki var úthlutað fjármagni sem nam 4,8% miðað við laun viðkomandi stétta þann 1. mars 2013. Ég er mjög ánægður með að hafa klárað báða samningana á þeim nótum sem jafnlaunaátakið gerði ráð fyrir,“ sagði Björn.