Samningur vegna jafnlaunaátaks

Í morgun gekk Eining-Iðja frá samningi við Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar. Samningurinn er sá fyrsti sem félagið gerir vegna jafnlaunaátaks sem fyrrverandi ríkisstjórn ákvað í lok janúar að ráðast í.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, skrifaði undir samninginn fyrir hönd félagsins. Samningurinn gildir frá 1. mars sl. og nær yfir þá starfsmenn heilbrigðisstofnunarinnar sem eru félagsmenn Einingar-Iðju. „Fyrrverandi ríkisstjórn ákvað fyrr á árinu að strax ætti að ráðast í jafnlaunaátak með aðgerðum sem beinast að því að rétta hlut starfsstétta þar sem konur eru í miklum meirihluta. Hverju fyrirtæki var úthlutað fjármagni sem nam 4,8% miðað við laun viðkomandi stétta þann 1. mars 2013. Ég er mjög ánægður með að hafa klárað þennan samning á þeim nótum sem jafnlaunaátakið gerði ráð fyrir. Á félagssvæðinu starfa tvö fyrirtæki sem átakið nær yfir, Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar og Sjúkrahúsið á Akureyri og er samningurinn við sjúkrahúsið í vinnslu,“ segir Björn.