Samninganefnd félagsins samþykkti samhljóða á fundi í gær heimild til verkfallsboðunar hjá félagsmönnum er vinna undir samningum SGS og SA, bæði almenna samningnum og einnig veitingahúsasamningnum. Fyrri atkvæðagreiðsla okkar var dæmd ólögmæt og því er hún endurtekin núna,en greint á milli aðildarfélaga innan SGS og þeirra samninga sem kosið er um.
Mjög mikið hefur verið hringt á skrifstofur félagsins og spurt hvenær atkvæðagreiðslan hefjist á ný. Við getum nú upplýst að atkvæðagreiðslan mun hefjast næsta mánudag, 13. apríl, kl. 8 og henni mun ljúka á miðnætti 20. apríl. Niðurstöður ættu að liggja fyrir daginn eftir. Atkvæðagreiðslan verður rafræn og munu félagsmenn fá sent lykilorð í pósti eftir næstu helgi.
Mjög mikilvægt er að fá góða þátttöku í atkvæðagreiðslunni og því hvetur félagið þá félagsmenn sem starfa eftir þessum samningum að greiða atkvæði um leið og þeir fá lykilorðið í hendur. Munið að spyrja vinnufélagana hvort þeir séu búnir að kjósa.
ATH! félagsmenn sem starfa hjá ríki eða sveitarfélagi eru ekki aðilar að þessum samningum og taka því ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.
Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en fær ekki send gögn er hægt að kæra sig inn. Viðkomandi þarf að hafa samband við Sigrúnu Lárusdóttir á skrifstofu félagsins á Akureyri.
Kæru félagar takið afstöðu með því að kjósa um verkfallsboðun.
Launafólk í landinu þarf á ykkar kröftum að halda.