Í morgun var tilkynnt að Samherji muni greiða starfsfólki sínu í landi 450 þúsund króna launauppbót í desember, til viðbótar umsaminni 74 þúsund króna desemberuppbót.
Í bréfi sem Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson sendu starfsfólki Samherja segir m.a. að upphæðin miðist við starfsmenn sem hafi verið í fullu starfi allt árið 2014. Samherji greiddi aukalega 61 þúsund krónur í orlofsuppbót til starfsmanna í maí og greiðir fyrirtækið því á árinu rúmlega hálfa milljón króna til hvers starfsmanns umfram kjarasamninga.
Jafnfram segir í bréfinu að meðal mánaðarlaun starfsfólks í fiskvinnslu í Eyjafirði séu um 410 þúsund krónur miðað við fullt starf. „Sú launauppbót sem greidd er á árinu samsvarar því rúmum einum mánaðarlaunum. Þeir sem njóta þessarar launauppbótar eru um 500 talsins. Í fiskvinnslum Samherja er unnið alla virka daga allt árið um kring. Þannig hefur það verið mörg undanfarin ár. Áherslan er sem fyrr á flóknari vinnslu með meiri virðisauka. Þannig erum við stöðugt að færa okkur nær neytandanum og uppfylla betur breytilegar þarfir hans. Samvinna allra starfsmanna sem hjá okkur starfa, hvort heldur er við veiðar, fiskvinnslu, fiskeldi eða markaðssetningu og annað er sem fyrr kjölfestan í árangri okkar. Það er alltaf ánægjulegt þegar hægt er að gera betur við starfsfólk, árið hefur gengið vel og þannig skapast tilefni. Við erum því glaðir í dag og mætum áskorunum komandi árs með sama krafti og áður sannfærðir um að við, í samstarfi við ykkur náum að gera betur á næsta ári en því síðasta.“