SA segir ekki upp kjarasamningum

Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins sem barst fyrir skömmu kemur fram að samtökin ætli sér ekki að segja upp Lífskjarasamningunum og hefur atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna því verið aflýst. Ákvörðunin var samhljóma í framkvæmdastjórn SA.

Í tilkynningu frá Samtökum atvinnlífsins segir m.a. að framkvæmdastjórn samtakanna telji sættir á vinnumarkaði mikilvægar og vill hún stuðla að þeim. Þá er ljóst að útspil ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrir hádegið vóg þungt í þeirri ákvörðun samtakanna að segja ekki upp samningum.

Þessi niðurstaða ASÍ og SA þýðir að samningurinn stendur óbreyttur. 

Þann 1. janúar 2021 hækka kauptaxtar um 24.000 kr. og almenn mánaðarlaun fyrir fullt starf hækka um 15.750 kr. Aðrir kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækka um 2,5% á sömu dagsetningu. Einnig hækka lágmarkstekjur fyrir fullt starf og verða 351.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf frá 1. janúar 2020. 

Mikilvægt er að félagsmenn fylgist vel með að umsamdar hækkanir og breytingar skili sér til þeirra með réttum hætti. 

Í kjarasamningi SGS við Samband Íslenskra sveitarfélaga eru ákvæði um að ef það verði breytingar á samningum á almennum markaði eða þeim verði sagt upp, sé hægt að segja upp þeim kjarasamningi. Ljóst er að ekki eru forsendur til slíks og koma því hækkanir í þeim samningi einnig til framkvæmda. Það sama gildir um kjarasamning SGS við ríkið.