Rúmlega 316,3 milljónir í greiðslur til félagsmanna á síðasta ári

Á síðasta ári fengu félagsmenn Einingar-Iðju greiddar út um 316,3 milljónir úr sjóðum félagsins. Um 169,5 milljónir króna úr sjúkrasjóði, um 86,5 milljónir úr orlofssjóði og um 60,5 milljónir úr fræðslusjóði. Árið á undan var upphæðin um 284 milljónir.

Eins og áður segir þá voru greiddar út um 169,5 milljónir króna úr sjúkrasjóði til félagsmanna. Árið 2019 var upphæðin um 160,5 milljónir. 
Dagpeningagreiðslur vega mest í upphæðinni en á síðasta ári fengu félagsmenn greidda rúmlega 136,1 milljón króna í dagpeninga miðað við um 127,4 milljónir árið á undan. Dagpeningagreiðslur geta verið vegna eigin veikinda, mjög alvarlega veikinda maka eða langveikra og/eða alvarlegra fatlaðra barna. 
Aðrar greiðslur úr sjúkrasjóði námu alls um 33,2 milljónum kr. sem er mjög svipuð upphæð og árið 2019. Þarna má m.a. nefna greiðslur vegna líkamsræktar, sjúkraþjálfunar og sjúkranudds, viðtöl við sálfræðinga og geðlækna, gleraugnaglerja, heyrnartækja, krabbameinsleitar o.fl.

Sjúkrasjóðir gott dæmi um samstöðuna
Í grein sem formaður félagsins ritaði í tilefni af 1. maí sem ber titilinn "Samstaða er lykillinn að réttlátu þjóðfélagi" sagði hann m.a.: "Baráttunni fyrir betri kjörum, auknu réttlæti og bræðralagi lýkur aldrei og við megum aldrei sofna á verðinum. Við verðum að standa saman og halda vörð um það sem hefur áunnist um leið og við sækjum fram. Samstaðan er okkar sterkasta og beittasta vopn."  Svo segir hann að sjúkrasjóðir stéttarfélaga sé gott dæmi um samstöðuna. "Á óvissutímum sem þessum er nauðsynlegt að minna á mikilvægt hlutverk ýmissa sjóða stéttarfélaganna. Sjúkrasjóður Einingar-Iðju hefur það hlutverk að mæta að miklu leyti tekjutapi félagsmanna vegna tímabundinna veikinda með greiðslu sjúkradagpeninga. Sjóðurinn endurgreiðir hluta af kostnaði félagsmanna meðal annars vegna líkamsræktar, sjúkraþjálfunar, sjúkranudds, viðtala við sálfræðinga, krabbameinsleitar, gleraugnaglerja og heyrnartækja. Á síðasta ári greiddi sjóðurinn um 169,5 milljónir króna vegna þessa og er því öflugur bakhjarl. Sömu sögu er að segja um önnur félög, slíkir sjóðir  gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki og sýna hverju samstaða fólks getur áorkað."