Rjúfum þögnina!

Samtök launafólks á vinnumarkaði kalla eftir því að atvinnurekendur og stjórnvöld axli ábyrgð og stórefli aðgerðir til að útrýma kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Samtök launafólks eru reiðubúin til að taka þátt í slíkum aðgerðum.

Þúsundir hugrakkra kvenna hafa að undanförnu stigið fram og sagt frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir á vinnustöðum með notkun myllumerkisins #metoo (#églíka) á samfélagsmiðlum.

Það er ábyrgð atvinnurekenda að fyrirbyggja og stöðva slíka hegðun. Samtök launafólks kalla eftir því að atvinnurekendur og stjórnvöld axli ábyrgð og stórefli aðgerðir til að útrýma þessari plágu á vinnustöðum. Við erum reiðubúin til að taka þátt í slíkum aðgerðum.

Samtök launafólks standa þétt að baki þolendum. Við hvetjum hverja þá og hvern þann sem þolað hefur ofbeldi og áreitni á vinnustað að leita til stéttarfélags síns eftir aðstoð. Barátta samtaka launafólks fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks á fjölmörgum sviðum hefur skilað miklum árangri, m.a. í reglum um vinnuvernd og leiðbeiningum til trúnaðarmanna um meðferð slíkra mála. Samt er enn langt í að kynferðislegri áreitni og ofbeldi verði útrýmt á vinnumarkaði.

Því miður er sjaldgæft að þolendur kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis á vinnustöðum leiti til stéttarfélaga sinna, eftirlitsaðila, úrskurðarnefnda eða dómstóla eftir úrlausn mála. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til að kynferðisleg áreitni sé landlæg og alvarleg á íslenskum vinnumarkaði. Fjöldi þeirra kvenna sem sagði sögur sínar af kynferðislegri áreitni undir myllumerkinu #metoo vakti marga til umhugsunar og ljóst er að brýn þörf er á vitundarvakningu.

Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum frá 2015 leggur ríkar skyldur á herðar atvinnurekenda. Samkvæmt henni skulu atvinnurekendur gera skriflegt mat á áhættuþáttum kynferðislegrar áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum, áætlun um forvarnir og aðgerðir til að koma í veg fyrir slíka hegðun og loks þær aðgerðir sem grípa skuli til ef talið er eða vitað að slík hegðun eigi sér stað eða hafi átt sér stað.

Konur ættu ekki að þurfa að berjast fyrir réttindum sínum með #metoo. Það er í höndum atvinnurekenda og stjórnvalda að tryggja öruggt vinnuumhverfi á vinnustað. Það á ekki að sópa kynferðislegri áreitni og ofbeldi undir teppið. Það þarf að útrýma því!

Afleiðingar kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni geta verið margvíslegar. Dæmi þar um er að þeir sem verða fyrir slíkri áreitni verði þunglyndir og kvíðnir. Alvarlegustu afleiðingar slíkrar áreitni valda fjarvistum vegna veikinda, óvissu um starfsöryggi og jafnvel starfsmissi. Þetta er sameiginlegur vandi okkar allra því afleiðingarnar hafa ekki bara áhrif á einstaklinginn, heldur einnig á fjölskyldu hans, vinnustaðinn og samfélagið.

Við þurfum að efla forvarnir verulega, stuðla að vitundarvakningu á vinnumarkaði og tryggja að á þolendur sé hlustað. Atvinnurekendur eiga að bregðast rétt við og sýna þolendum stuðning. Samtök launafólks skorast ekki undan því að taka þátt í þeim aðgerðum.

Laugardaginn 25. nóvember er alþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum. Stöndum þétt saman og vinnum að því að uppræta ofbeldi og áreitni á öllum sviðum samfélagsins, líka á vinnustöðum.

 

Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands

Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB

Þórður Hjaltested formaður Kennarasambands Íslands

Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Bandalags háskólamanna