Ríkissáttasemjari í heimsókn

Í morgun kom Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í heimsókn á skrifstofu félagsins á Akureyri og áttu Björn formaður og Anna varaformaður Einingar-Iðju, ásamt Heimi Kristinssyni, varaformanni Byggiðnar, gott samtal við hann. 

Björn, Anna og Heimir eru sammála um að það sé mjög jákvætt að ríkissáttasemjari heimsæki stéttarfélögin og afli sér upplýsinga um starfsemi þeirra. Það er mjög gott að hann gefi sér tíma að í að hitta fólk og kynna sig því það skiptir alla, sem koma að kjarasamningsgerð, miklu að eiga í góðu samstarfi við ríkissáttasemjara og hans starfsfólk. 

Aðspurður sagði Aðalsteinn að ástæða heimsóknarinnar væri að fræðast um hagsmuni, verkefni og viðhorf félaganna. Einnig að kynnast fólki betur og eiga við það gott spjall. Hann hefði gjarnan viljað hafa haft tækifæri til þess á sínum fyrstu dögum í starfi, en eins og alþjóð veit þá hafa mjög mörg mál verið á borði ríkissáttasemjara allt frá því hann hóf störf í vor. „Núna ákvað ég að taka dag og dag þegar færi gefst í heimsóknir sem þessa. Að hitta fólk og horfast í augu við það getur auðveldað öll samskipti seinna meir, t.d. bara að taka upp símann og spjalla um málin.“ Hann sagði einnig að ef til þess kemur að þau vinni saman í samningagerð í framtíðinni þá er gott að hann þekki hagsmuni félaganna, samsetningu, verkefni, viðhorf og fólkið. Þannig að með þessu er hann betur í stakk búinn til þess að geta veitt þá aðstoð sem skiptir máli. „Svo er þetta líka bara svo skemmtilegt, að fá að koma, kynnast fólki og sjá hvaða verkefni það er að fást við.“