Ríkinu óskylt að efna loforð og samninga

Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli sem ASÍ höfðaði fyrir hönd Gildis – lífeyrissjóðs, þarf ríkið ekki að standa við skriflegt loforð sitt um endurgreiðslu sérstaks skatts á almennu lífeyrissjóðina. Undan því loforði komst ríkið einfaldlega með því að láta hjá líða að sækja sér lagaheimild til greiðslu. Í dómi sínum staðfesti Hæstiréttur hins vegar að jöfn skattlagning á alla lífeyrissjóði geti falið í sér mismunun í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrár.

Á árinu 2013 höfðaði ASÍ í eigin nafni mál á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á því að skattlagning á lífeyrissjóðina væri andstæð stjórnarskrá. Málinu var vísað frá dómi og frávísun staðfest í Hæstarétti. Þann18. mars 2014 stefndi ASÍ málinu að nýju en nú í nafni Gildis lífeyrissjóðs. Þann 17.9 2015 var íslenska ríkið sýknað í héraði. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar og þann 15.9 2016 og var héraðsdómur staðfestur án þess þó að vísað væri til forsendna héraðsdóms. Í forsendum Hæstaréttar segir: 

„Áfrýjandi telur það óumdeilanlegt að skattlagning sú sem fólst í bráðabirgðarákvæði XIV í lögum nr. 129/1997 hafi komið með ólíkum hætti niður á þeim tveimur flokkum lífeyrissjóða sem áður greinir og þar með sjóðfélögum þeirra. Það helgist af því að ábyrgð launagreiðenda á skuldbindingum fastréttindasjóða leiði til þess að réttindi sjóðfélaga skerðist ekki þótt sjóðirnir þurfi að standa skil á sköttum eins og þeim sem hér um ræðir. Á hinn bóginn sé greiðslugeta fastiðgjaldasjóðanna háð eignum þeirra og því geti slík skerðing á eignum, sem skattlagningin fól í sér, leitt til þess að takmarka þurfi lífeyrisréttindi sjóðfélaga.“ 

Síðan segir: „Lagt verður til grundvallar við úrlausn málsins að staða lífeyrissjóða í landinu sé mismunandi að því leyti sem lýst hefur verið og að sú staðreynd geti skipt máli við skattlagningu eins og þá sem málið varðar. Meta verður hverju sinni hvort mismunur á stöðu skattaðila, sem sæta sömu skattlagningu, fari í bága við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.“
Með þessum hætti kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að lífeyrissjóðir á almennum og opinberum vinnumarkaði séu sambærilegir í skilningi laga og að þess vegna geti skattlagning sem á yfirborðinu mismunar þeim ekki, gert það í raun og því verið andstæð stjórnarskrá. Þetta var ekki niðurstaða héraðsdóms sem komst að þeirri niðurstöðu að mismununina væri ekki að rekja til skattlagningarinnar sem slíkrar heldur skipulags lífeyrisréttinda. Í þessum skilningi er dómurinn sigur fyrir sjónarmið Alþýðusambandsins. Hæstiréttur kemst síðan að þeirri niðurstöðu að skattlagningin hafi ekki mismunað þar sem hún hafi bæði verið málefnaleg og hófleg af eftirfarandi ástæðum:

(1) Skatturinn leiddi í raun ekki til skerðingar réttinda og skerti ekki möguleika þeirra til þess að auka réttindi síðar. Þar af leiðir hafði skattlagningin ekki „verulega þýðingu“ við mat afleiðinga hennar. 
(2) Skattlagningarhlutfallið var lágt, 0.0814%, og skattlagningunni bara ætlað að standa í tvö ár. Þar af leiðir var hún ekki líkleg til þess að hafa áhrif á greiðslugetu fastiðgjaldasjóðanna. 
(3) Markmið skattlagningarinnar var gott þ.e. hún átti að fjármagna sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem rök megi færa fyrir að hafi bætt greiðslugetu skuldsettra lánþega lífeyrissjóðanna. 

Í málinu var einnig byggt á því að tekist hefði skuldbindandi samningur milli fjármálaráðherra og lífeyrissjóðanna um endurgreiðslu álagðra skatta gegn þátttöku í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans. Hæstiréttur taldi að til þess að slíkt loforð teldist skuldbindandi þyrfti að koma til sérstök lagaheimild sbr. 41.gr. stjórnarskrár. Þessi niðurstaða er í samræmi við almenna skýringu stjórnarskrár en mun í raun þýða, að í samskiptum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda verður ekki lengur hægt að byggja á eiginlegum undirrituðum samningum við stjórnvöld, frekar en einhliða yfirlýsingum sem tíðkuðust áður fyrr. Stjórnvöld hafa á síðari árum ekki talið sér skylt að standa við gefin fyrirheit í tengslum við kjarasamninga nema þeim henti. Það er breyting frá því sem áður var er orðum ráðherra í þessu efni var treystandi. Dómurinn gefur því fullt tilefni til þess að breyta samskiptareglum og krefjast betri trygginga fyrir efndum og skýrari forsendna í kjarasamningum.

Dómar Hæstaréttar og héraðsdóms