Í blaði félagsins sem kom út fyrr í mars má finna eftirfarandi viðtal við Jónu Finndísi Jónsdóttur sem er forstöðumaður réttindasviðs Stapa lífeyrissjóðs.
Íslendingar sýndu snemma forsjálni og byggðu upp lífeyriskerfi sjóðsöfnunar. Í vor verða 50 ár liðin frá því forystumenn heildarsamtaka atvinnurekenda og launafólks undirrituðu kjarasamninga sem mörkuðu tímamót vegna ákvæðis um aðild launafólks á almennum vinnumarkaði að lífeyrissjóðum. Saga almennu lífeyrissjóðanna spannar því nú 50 ár. Af því tilefni var Jóna Finndís Jónsdóttur, forstöðumaður réttindasviðs Stapa lífeyrissjóðs, fengin til að svara nokkrum spurningum um réttindaávinnslu í sjóðnum og valkosti sjóðfélaga. Jóna Finndís hefur verið með áhugaverðar kynningar um lífeyrismál fyrir trúnaðarmenn stéttarfélaga en Stapi hefur einnig tekið þátt í starfslokanámskeiðum og ýmsum öðrum verkefnum á þeirra vegum.
Hvað verður um iðgjaldið sem greitt er til lífeyrissjóðsins?
Greiðslum í samtryggingarhluta lífeyrissjóðs fylgir má segja tvíþætt hlutverk, annars vegar að safna upp sjóð til að standa undir ævilöngum eftirlaunum og hins vegar að veita tryggingavernd vegna áfalla. Við inngreiðslu í Stapa lífeyrissjóð er iðgjaldinu í grunninn skipt í tvennt, stærri hlutinn safnast upp í réttindasjóð, sem líkja má við verðbréfasjóð. Réttindasjóðurinn er skráður á kennitölu hvers sjóðfélaga og á að standa undir ævilöngum eftirlaunum. Hinum hluta iðgjaldsins má líkja við iðgjald til tryggingafélaga, hann myndar sameiginlegan sjóð allra sjóðfélaga og á að standa undir tryggingavernd vegna áfalla.
Hvers konar tryggingar eru í tryggingaverndinni?
Lífeyrissjóðnum ber að greiða örorkulífeyri til þeirra sjóðfélaga sem verða fyrir tekjumissi vegna örorku eins lengi og örorkan varir eða til 67 ára aldurs. Upphæð örorkulífeyris tekur mið af þeim réttindum sem viðkomandi hefur áunnið sér í réttindasjóði og í flestum tilfellum áætlun um hvaða réttindi sjóðfélagi hefði áunnið sér með áframhaldandi greiðslum til 65 ára aldurs hefði hann ekki orðið fyrir orkutapi. Eins ber sjóðnum að greiða eftirlifandi maka og börnum tímabundinn lífeyri falli sjóðfélagi frá. Makalífeyrir tekur líkt og örorkulífeyri mið af áunnum réttindum að viðbættri áætlun um framtíðargreiðslur, ef sjóðfélagi var yngri en 65 ára við fráfall. Fullur makalífeyrir er 50% af réttindum sjóðfélaga til örorkulífeyris eða eftirlauna.
Tilgreind séreign, hvað er það?
Tilgreind séreign er nýtt form lífeyrisréttinda sem varð til í kjölfar kjarasamnings ASÍ og SA árið 2016 þar sem m.a. var samið um 3,5% þrepaskipta hækkun á mótframlagi launagreiðanda í lífeyrissjóð. Þeir sjóðfélagar sem fá greitt samkvæmt kjarasamningum ASÍ og SA hafa kost á að ráðstafa allt að 3,5% mótframlagi launagreiðanda í tilgreinda séreign, í stað samtryggingar. Eðlismunur er á réttindum í tilgreindri séreign og samtryggingu því leggjum við mikla áherslu á að sjóðfélagi kynni sé málið vel áður en valið er. Ef sjóðfélagi vill láta allt að 3,5% renna í tilgreinda séreign þá þarf hann að fylla út tilkynningu sem finna má á vef Stapa undir umsóknir.
Hvar geta sjóðfélagar nálgast upplýsingar um réttindi sín?
Á vef Stapa er hlekkur á „Vef sjóðfélaga“ þar sem sjóðfélagi getur skráð sig inn með rafrænum skilríkjum eða veflykli. Þar má nálgast upplýsingar um greidd iðgjöld og uppsöfnuð réttindi , bæði hvað varðar réttindasjóð sinn í samtryggingardeild og séreign. Á vef sjóðfélaga er einnig hægt að velja „Lífeyrisgátt“ þar sem sóttar eru upplýsingar um réttindi viðkomandi sjóðfélaga í alla samtryggingasjóði sem hann hefur greitt inn í á starfsævinni. Við mælum með því að sjóðfélagar skoði þessar upplýsingar reglulega og fylgist með réttindum sínum vaxa eftir því sem líður á starfsævina.
Þarf að rýna sjóðfélagayfirlitin sem send eru út tvisvar á ári eða eru þau bara til upplýsinga?
Á launaseðlum kemur fram hvaða greiðslur launagreiðandi ætlar að greiða til lífeyrissjóðsins. Því miður getur verið misbrestur á því að launagreiðendur skili iðgjöldum í raun og veru og einnig getur verið að upphæð iðgjaldanna sé ekki í samræmi við kjarasamninga. Lífeyrissjóðurinn getur eingöngu innheimt þau iðgjöld sem hann veit af og er ekki með upplýsingar um eftir hvaða kjarasamningum hver sjóðfélagi fær greitt. Því er mikilvægt að sjóðfélagi beri saman launaseðla og sjóðfélagayfirlit og rýni einnig upplýsingar um hversu hátt iðgjald er greitt svo að rétt upphæð skili sér til lífeyrissjóðsins. Sjóðfélagi þarf að hafa strax samband við lífeyrissjóðinn telji hann að iðgjöld vanti á yfirlitið, annars getur sparnaður tapast. Hægt er að afþakka pappírsyfirlit í gegnum „Vef sjóðfélaga“ ef það er gert þá fær viðkomandi tölvupóst þegar sjóðfélagayfirlit er vistað á „Vef sjóðfélaga“. Eftir sem áður hvetjum við sjóðfélaga eindregið til að rýna yfirlitin í hvert sinn sem þau berast.
Hvenær getur sjóðfélagi hafið töku eftirlauna?
Sjóðfélagi getur hafið töku eftirlauna við 60 ára aldur en einnig beðið með að taka eftirlaun allt fram til 80 ára aldurs. Jafnframt getur hann valið að byrja á hálfum eða fullum eftirlaunum og upphaf töku eftirlauna er ekki bundið því að hann hætti að vinna. Sjóðnum ber þó að úrskurða eftirlaun við 70 ára aldur, hafi sjóðfélagi ekki óskað sérstaklega eftir frestun. Algengast er að sjóðfélagar hefji töku eftirlauna við 67 ára aldur en þeim hefur fjölgað undanfarin ár sem hefja töku eftirlauna upp úr 60 ára aldri. Einnig eru nokkrir sem kjósa að hefja ekki töku eftirlauna fyrr en eftir 70 ára aldur. Upphæð eftirlauna stjórnast annars vegar af því hvaða réttindasjóð sjóðfélagi á og hins vegar aldri við upphaf töku eftirlauna. Áætluð eftirlaun hækka eftir því sem aldur við upphaf töku eftirlauna hækkar, fyrst og fremst vegna þess að þá dreifist réttindasjóðurinn á færri áætlaða ólifaða mánuði. Ef sjóðfélagi hefur töku eftirlauna við 60 ára aldur þá er mánaðarlegur lífeyrir nær 40% lægri en áætlaður lífeyrir við 67 ára aldur, skoða má áhrif aldurs á upphæð lífeyris með reiknivél á „Vef sjóðfélaga“.
Þarf nokkuð að skoða lífeyrisréttindi fyrr en líður að eftirlaunatöku?
Mikilvægt er að huga fremur fyrr en síðar að eftirlaunaárunum, meta réttindi sín í lífeyrissjóðum, bæði samtryggingu og séreign, rétt eins og aðrar eignir, með hliðsjón af því að mögulega vilja og geta sumir lagt fyrir aukalega til að njóta á eftirlaunaárunum.
Ef frekari upplýsinga um lífeyrissjóðinn er óskað, hvert á sjóðfélagi að snúa sér?
Á vefsíðu Stapa (www.stapi.is) má nálgast ýmsar upplýsingar um lífeyrissjóðinn, þar höfum við sett upp viðamikið „Spurt og svarað“ með þeim spurningum sem við teljum líklegast að sjóðfélagar hafi. Ef þið finnið ekki upplýsingar þar þá viljum við hvetja ykkur til að hafa samband í tölvupósti (stapi@stapi.is) eða hringja til okkar.
Nokkur orð að lokum?
Réttindi í lífeyrissjóðum eru í mörgum tilfellum stærsta eign heimila, og sá sparnaður sem lagður er fyrir snemma á lífsleiðinni má segja að sé verðmætastur því hann ávaxtast lengst. Við leggjum mikla áherslu á að réttindakerfi Stapa sé gagnsætt og við viljum útskýra fyrir hverjum þeim sem heyra vill hvernig það virkar. Fulltrúar á ársfundum taka ákvarðanir um samþykktabreytingar sjóðsins. Til þess að þeir geti myndað sér skoðun á breytingatillögum eða komið með slíkar sjálfir er undirstöðuþekking á lífeyriskerfinu nauðsynleg. Við trúum því að með betri þekkingu sjóðfélaga á kerfinu verði umræða um lífeyrissjóðinn jákvæðari og að sjóðfélagi meti eign sína í honum að verðleikum.