Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, flutti aðalræðu dagsins á 1. maí
hátíðarhöldunum á Akureyri. Ræðuna má finna hér fyrir neðan.
Ágætu félagar
Til hamingju með daginn! 1. maí er dagurinn okkar. 1. maí er sá dagur sem við eigum að sýna samhug í verki og fara yfir farinn veg í okkar réttindabaráttu. Í dag þykir okkur oft sjálfsagt að við njótum ýmissa réttinda eins og að við fáum kaffitíma, að fá sumarorlof og að fá greitt fyrir vinnu eftir því hvenær við skilum henni af okkur. Þetta hefur ekki alltaf verið svona. Það var ekki sjálfgefið að fólk fengi yfirvinnu greidda hér á árum áður. Fólk vann 6 daga vikunnar rétt til þess að ná endum saman enda þótti ekkert sjálfsagðara en að fólk ynni langa vinnudaga.
Mannsæmandi laun fyrir þessa vinnu stóðu okkur ekki til boða fyrir hundrað árum síðan. Mannsæmandi laun sem launafólk gat lifað mannsæmandi lífi á. Við viljum jú geta notið lífsins með fjölskyldu og vinum. Við viljum nýta allan mögulegan frítíma til þess að efla okkar tengslanet innan fjölskyldunnar.
Þegar við hófum gerð kjarasamninga síðastliðið haust með formlegum hætti þá var uppi krafa meðal okkar félagsmanna að við vildum fá launahækkanir sem ekki bara skiluðu sér í vasann heldur myndu endast lengur í vasanum! Okkar félagsmenn vildu sjá aukinn kaupmátt launa án þess að þurfa að greiða lánadrottnum enn hærri vexti í formi hærri verðbólgu.
En almennur vinnumarkaður ætlaði ekki einn að búa til stöðugleika, það þurftu allir að gera!
En búum við í dag við mannsæmandi laun?
Við höfum náð þeim undraverða árangri að laun okkar hafa hækkað margfalt á við laun nágrannaþjóða okkar. Við eigum væntanlega Norðurlandamet í launahækkunum undanfarinna áratuga og síðustu aldar.
Samt sem áður stöndum við í verri stöðu en frændur okkar á Norðurlöndum! Við glímum sífellt við alltof háa verðbólgu. Verðbólgan er okkar þjóðarböl. Verðbólgan gerir það að verkum að þær launahækkanir sem við náum fram í kjarasamningum eru iðulega teknar af okkur daginn eftir.
Kjarasamningarnir í desember á síðasta ári og þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið á þessu ári af hálfu ASÍ og einhverra opinberu félaganna miðuðu að því að gefa þjóðfélaginu færi á því að móta grunn fyrir aukinn kaupmátt launa á komandi árum. Grunn að tiltölulega hægum en öruggum skrefum í átt að auknum kaupmætti launa. Við mótuðum grunn að lægri verðbólgu, ekki eingöngu með því að launahækkanir yrðu hóflegar, heldur settum við mikla pressu á fyrirtæki landsins að hækka ekki verðlag, við settum mikla pressu á sveitarfélög í aðhaldi að gjaldskrár- og skattahækkunum. Við settum mikla pressu á ríkisstjórn að ríkið stæði í fararbroddi í því að draga úr verðbólgu með því að hækka ekki álögur á landsmenn.
Við getum fagnað því að átakið skilaði sér í lægri verðbólgu. Sveitarfélög flest hver féllu frá gjaldskrárhækkunum. Fjölmörg fyrirtæki gerðu slíkt hið sama þó svo að einhver hafi hækkað verð. Ríkið fór hins vegar gömlu leiðina. Sökum hárrar verðbólgu síðasta árs þá sótti ríkið sér leiðréttingu vegna þeirrar verðbólgu! Þeir höfðu ekki manndóm í sér að standa með fólkinu og gera hvað þeir gátu að halda verðbólgu í skefjum. Árangurinn hefði orðið mun meiri hefðu þeir fylgt með af fullri hörku.
Við skulum halda því til haga að vissulega voru skattar lækkaðir á flesta landsmenn um síðustu áramót EN það gekk þó ekki stóráfallalaust að ná því fram að skattalækkanir næðu til þeirra sem lægri hafa launin! Það tókst ekki að fá fram skattalækkanir á lægsta tekjuhópinn en hefðu verkalýðsfélögin á almennum vinnumarkaði innan ASÍ ekki beitt sér fyrir því að fá fram breytingar á áformum ríkisstjórnarinnar þá hefðu þeir tekjuhæstu fengið mestu skattalækkunina.
Í dag eru mestu áhyggjur stjórnvalda að huga að stöðu þeirra sem hafa það best, þá launahæstu.
Viljum við ekki örugglega að samfélagið sé fyrir alla?
Viljum við búa til samfélag fyrir suma? Viljum við búa til kaupaukakerfi fyrir þá sem hæstu launin hafa svo þeir geti fengið tvöföld árslaun?
Er virkilega svo fyrir okkur komið að við viljum auka misskiptingu hér á landi?
Höfum við ekkert lært af því efnahagshruni sem við fórum í gegnum og stöndum reyndar enn í dag? Er mikilvægast fyrir þjóðfélagið að þeir ríku fái að verða ríkari? Er það mikilvægast fyrir þjóðfélagið að öfgalaunin í fjármálafyrirtækjum þurfi að tvöfalda samanber frumvarp til laga sem Fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi Íslendinga?
Ef við skoðum hvað var lagt fyrir ársfund Sjóvár í þessari viku en þar sagði í tillögum stjórnar í beinni
tilvitnun: “Fyrirhugað er að koma á árangurstengdu launakerfi fyrir starfsmenn. Kerfið skal vera í samræmi við reglur
Fjármálaeftirlitsins um slík kerfi hjá Fjármálafyrirtækjum.”
Hér er strax vísað til væntanlegra breyttra laga Fjármálaráðherra.
Væri ekki réttara að kaupaaukakerfum Fjármálaráðherra yrði fyrirkomið í launum almenns launafólks? Þar sem raunveruleg verðmætasköpun fer fram! Væri ekki ráð að hækka launin okkar allra? Leita allra leiða til þess að auka jöfnuð? Eða ætlum við á blása út fjármálafyrirtækin okkar AFTUR og sjá til hvort þetta “reddist ekki” í þessari lotu?
Við sjáum að það viðskiptasiðferði, ef siðferði skyldi kalla, sem viðgekkst fyrir hrun er komið aftur á fulla siglingu. Við getum ekki sætt okkur við aukna misskiptingu áfram!
Við viljum samfélag fyrir alla!
Við erum ekki að reyna að búa til Þjóðarsátt um laun forstjóra,
við erum ekki að reyna að búa til þjóðarsátt um laun starfsmanna fjármálafyrirtækja eða annarra hópa sem sækja
sér launaleiðréttingar. Rafiðnaðarmenn þurfa á launaleiðréttingum að halda og verða þær leiðréttingar sóttar
í komandi samningalotu enda er sú leiðréttingarbylgja þegar hafin. Verðbólga mun ekki aukast við það eitt að rafiðnaðarmenn
sæki sér launaleiðréttingu.
Vegferðin sem farið var í um síðustu áramót miðaði við það að allir myndu fylgja með í þessa vegferð. Vegferðin byggir á því að ná fram auknum kaupmætti launa samhliða lágri verðbólgu. Við kunnum hins vegar að sækja launahækkanir í hárri verðbólgu og menn munu ekki skorast undan því!
Við getum náð okkur í ríkislaunahækkunina sem sumir kalla 2,8% en er eitthvað allt annað!
Samkeppnisfærni Íslands í samanburði við nágrannalönd okkar er afar slæm ef við horfum til þess að halda vel menntuðu fólki hér heima. Rafiðnaðarmenn hafa á undanförnum árum sótt sér vinnu við hæfi í Noregi, Danmörku og Svíþjóð á töluvert betri kjörum þrátt fyrir þann kostnað sem felst í því að ferðast á milli landa.
Rafiðnaðarmenn eru gríðarlega eftirsóttir til vinnu í Noregi enda höfum við á undanförnum áratugum unnið að því að samræma menntun í rafiðnaðargreinum á milli landa. Okkar fólk hefur sama grunn og frændur okkar en hafa samt sem áður á sama tíma breiðari þekkingu enda er minni sérhæfing í námsleiðum hér heima en erlendis. Þetta gerir það að verkum að íslenskir rafiðnaðarmenn geta unnið allflest störf í rafiðnaði án þess að þurfa að auka við menntun sína.
Ef við ætlum að ná allri þeirri þekkingu aftur heim sem við erum að missa úr landi þá verðum við að búa til slíkan grunn sem þessir starfsmenn geta sætt sig við til að byggja á. Óstöðugleiki, sífelldar gengisfellingar, dýrari rekstur heimila og há verðbólga er ekki boðleg fyrir þjóðina.
Stjórnvöld þurfa að grípa í taumana ef þeir ætla sér að snúa skútunni við. Handan við hornið býður okkar skuldaniðurfærsla. Heimsmetið í skuldaleiðréttingum. Sem er væntanlega tilkomið sökum þess að við eigum einhverskonar heimsmet í verðbólgu. Leiðréttingin mun klárlega hafa jákvæð áhrif á marga félagsmenn mína. Skuldaniðurfærslan mun skila sér í veski okkar flestra til skamms tíma en verði ekkert að gert mun verðbólgan auka skuldir okkar aftur og mögulega hraðar en ella. Leiðréttingin getur gengið til baka verði verðbólgan há aftur! Við verðum því væntanlega á svipuðum stað innan skamms tíma nái þjóðin ekki að styrkja gengi krónunnar.
Það gefur auga leið að gengi íslensku krónunnar þarf að styrkjast og verða stöðugt til frambúðar svo mögulegt sé að byggja á stöðugleika. Við getum lært það af síðast gerðum kjarasamningum að við getum náð stöðugleika til skamms tíma með samstilltu átaki en átakið þarf þá að vera með aðkomu ALLRA!
Forstjórarnir þurfa einnig að fylgja! Stjórnendur þurfa einnig að taka þátt í vegferðinni!
Ég óttast mjög að Seðlabanki Íslands ætli sér ekki að lækka stýrivexti á næstunni. Þeir stefna ekki á að lækka vaxtastig hér á landi til þess að styðja við heimili landsins sem og fyrirtækin, þrátt fyrir lága verðbólgu. Hátt vaxtastig er farið að vera þensluhvetjandi enda þurfa heimili og fyrirtæki enn hærri tekjur til að standa undir greiðslum af þessu tagi. Aukin vaxtabyrði á skuldsett heimili og fyrirtæki dregur úr mögulegum bata þjóðarinnar.
Háir vextir auka jafnframt á þrýsting á gengi krónunnar enda bíða gríðarlegar fjárhæðir í krónum þess að komast úr landi. Þær krónur bera vexti samkvæmt gjaldskrá Seðlabanka Íslands en vextina má greiða úr landi þrátt fyrir gjaldeyrishöft. Með hækkandi vöxtum hækka vaxtagreiðslur úr landi.
Það hefur löngum verið kallað eftir því að stjórnvöld komi fram með peningastefnu sína. Við höfum notið íslensku krónunnar alla tíð síðan 1871. Í sögulegu samhengi má sjá að krónan hefur ætíð verið óstöðug og allar líkur eru á því að hún verði áfram óstöðug!
Því hefur þó verið lýst yfir að núverandi stjórnvöld muni ná tökum á gjaldmiðlinum. Við viljum sjá með hvaða hætti á að ná stöðugleika í gengið.
Af hverju í ósköpunum hefur engum dottið það fyrr í hug að ná þessum tökum á gjaldmiðli okkar ef það er svona auðvelt?
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mikið ósætti er um áform ríkisstjórnar um að draga til baka umsókn um aðild
að ESB. Við höfum mörg hver talað fyrir því að við viljum fá að sjá samninginn sem mun standa okkur til boða. Í beinu framhaldi
viljum við að þjóðin fái að segja sína skoðun á þeim samningi.
Koma fram sérlausnir sem henta okkur í sjávarútvegsmálum?
Koma fram sérlausnir sem henta okkur í landbúnaði?
Við vitum það ekki endanlega fyrr en samningur liggur fyrir. Við viljum fá að segja okkar skoðun á þessu máli og afgreiða málið endanlega í þjóðaratkvæðagreiðslu!
Það er ekki hlutverk Alþingis að ákveða til frambúðar að þjóðin eigi að standa fyrir utan Evrópusambandið. Það er þjóðin sem á að taka þá ákvörðun!
Staða okkar fólks á húsaleigumarkaði er afar slæm. Okkar fólk sem hefur lægstu tekjurnar hefur ekki bolmagn til þess að fjárfesta
í íbúðum. Þetta fólk hefur jafnframt oft á tíðum ekki efni á því að greiða himinháa leigu af
húsnæði líkt og þekkist í dag. Leigu sem í mörgum tilfellum hefur hækkað um allt að 29% á einu ári. Leiguverð sem
þá þegar var svo hátt að oft á tíðum var vart viðráðanlegt fyrir tiltölulega litlar íbúðir.
Hvernig ætlum við að standa við bakið á þessu fólki? Þetta fólk verður fyrir forsendubresti í dag líkt og í kringum
2009. 29% hækkun á einu ári er langt frá því að vera boðleg!
Og hvað með fólkið okkar sem þarf á félagslegu húsnæði að halda, hvernig ætlum við að tryggja þeim
húsnæði á viðráðanlegu verði? Við þurfum að grípa strax í taumana og stíga skref í rétta átt til
að bæta stöðuna.
Alþýðusamband Íslands hefur komið fram með ákveðnar lausnir í félagslega húsnæðiskerfinu þar sem samfélagið
stendur á bakvið þá sem nauðsynlega þurfa á því að halda. Kerfið gerir einnig ráð fyrir því að fólk
geti bætt stöðu sína án þess að þurfa að flytja úr þessu kerfi.
Góðir félagar, nú erum við að hefja samningaviðræður næstu samningalotu en eins og fram kom um síðustu áramót þá ætla aðilar sér að nýta samningstímann vel til þess að fara yfir forsendur kjarasamninganna, meta stöðu hagkerfisins. Jafnframt er liður í þessu að fara yfir og meta síðustu kjarasamninga, hvaða áhrif þeir hafa haft og hvort kjarasamningar séu allir sambærilegir. Í þeirri vinnu gerum við ráð fyrir að hópar á almennum vinnumarkaði muni sækja sér launaleiðréttingar sökum þess að þeir hafa dregist aftur úr á undanförnum árum.
En stóra spurningin er ennþá: Fáum við í dag mannsæmandi laun fyrir okkar dagvinnu?
Nei við megum nefnilega gera mikið betur. Svokallaður sveigjanleiki krónunnar veldur því að laun okkar í dag eru ekki enn orðin mannsæmandi. Við þurfum að gera mikið betur. Við viljum geta lifað af dagvinnunni einni saman. Við eigum ekki að þurfa að vinna myrkranna á milli til þess að ná endum saman.
Vissulega hefði ég viljað sjá alla fylgja með í þessari vegferð við að ná verðbólgu niður og auka stöðugleika hér á landi. En ég neita því hins vegar ekki að þau inngrip sem Alþingi íslendinga hefur beitt í kjaradeilum launafólks, fyrst með lögum á starfsmenn Herjólfs og síðan með ógnunum við flugvallarstarfsmenn eru algjörlega út úr öllu korti!
Það er grundvallar réttur launafólks að njóta samningaréttarins. Samningaréttar til að semja um sín kjör. Réttindi og skyldur. Verkfallsrétturinn er hluti af samningaréttinum enda er hann eina vopnið sem við höfum í höndunum til þess að beita okkur fyrir bættum kjörum ef kjaraviðræður ganga illa.
Þennan rétt eigum við og hann má ekki taka af okkur. Ætli stjórnvöld að grípa inn í kjaradeilur aðila þá mega þau ekki taka stöðu með öðrum samningsaðilanum án þess að leysa úr deilunni. Það að taka vopnin úr höndum annars aðilans skilur hann eftir í verri stöðu.
Það gefur auga leið að engin sátt mun takast í kjaradeilum nema lausnir komi einnig til.
Í dag hefur Rafiðnaðarsamband Íslands nokkra lausa kjarasamninga. Flestir þeirra sem eftir á að ganga frá hafa verið felldir í atkvæðagreiðslum sökum þess að ríkið hefur lagt nýja línu við gerð kjarasamninga. Þeir kjarasamningar sem eftir eru munu væntanlega verða í anda ríkisins enda bjóða þeir kjarasamningar upp á góðan grunn til að byggja á. Við munum ekki bíða eftir næstu samningalotu til að sækja okkur leiðréttingar sem sanngjarnar eru enda er tækifærið í dag.
Við höfum aflið í höndunum, við höfum þungann með okkur og við getum sótt fram til þess eins að ná fram sanngjörnum leiðréttingum.
Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir,
en auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir.
Nú er tími til dirfsku og dáða.
Vér dugum, - þiggjum ekki af náð,
Látum bræður því réttlætið ráða,
svo ríkislög vor verði skráð.
Góðir félagar. Við þurfum á samstöðu að halda. Við þurfum að sækja fram í sameiningu gegn óréttlætinu! Við viljum aukinn jöfnuð. Við viljum bætt siðferði!
Góðir félagar, látum í okkur heyra, látum taka mark á okkur!
Við viljum samfélag fyrir ALLA!
Til hamingju með daginn!