Ráðning erlendra starfsmanna

Í einblöðungi sem ASÍ gaf út í apríl má finna eftirfarandi upplýsingar fyrir þá sem ætla að ráða erlendan starfsmann til vinnu hér á landi. Fólki frá Evrópska efnahagssvæðinu, Sviss og Færeyjum er frjálst að koma hingað til starfa og þurfa ekki dvalar- eða atvinnuleyfi. Þessi ríki eru:

Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Króatía, Kýpur, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Spánn, Slóvakía, Slóvenía, Stóra Bretland, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland, Þýskaland, Sviss og Færeyjar.

Skráning

  • EES borgarar skulu skrá lögheimili sitt hér á landi ef þeir ætla að starfa hér lengur en 3 mánuði eða vera í atvinnuleit lengur en 6 mánuði. 
  • Lengri dvöl án lögheimilisskráningar er óheimil og getur valdið brottvísun.
  • Skrá skal lögheimili á Íslandi innan 7 daga frá komu til landsins eða um leið og viðkomandi uppfyllir skilyrðin t.d. innan viku frá undirritun ráðningasamnings en þó aldrei seinna en 6 mánuðum frá fyrstu komu.
  • Einstaklingar þurfa sjálfir að sækja um lögheimilisskráningu og varanlega kennitölu og þurfa að sýna ráðningarsamning eða sýna fram á framfærslu á annan hátt. Réttindi svo sem til sjúkratrygginga miðast við þessa skráningu.
  • Atvinnurekandi getur sótt um svokallaða utangarðskennitölu fyrir starfsmenn sína en hún er bara hugsuð til bráðabirgða, til þess að hægt sé að greiða laun og launatengd gjöld og veitir engin réttindi. Það er því mikilvægt að atvinnurekandi leiðbeini starfsmanninum um mikilvægi þess að skrá lögheimili sitt sbr. hér að framan.

Sjúkratryggingar
Erlendir ríkisborgarar verða sjúkratryggðir eftir að hafa átt lögheimili hér á landi í 6 mánuði eða um leið og lögheimilisskráning er afgreidd, með því að skila inn E-104 vottorði frá heimalandi til Sjúkratrygginga Íslands. Mælt er með því að EES borgarar hafi einnig meðferðis Evrópska sjúkratryggingakortið til að nota meðan beðið er eftir lögheimilisskráningu. Sjá nánar á www.sjukra.is

Ráðningarsamningur
Mikilvægt er að gera ráðningarsamning við erlenda starfsmenn sem fyrst svo þeir geti sótt um kennitölu og lögheimilisskráningu. Atvinnurekenda er skylt að gera skriflegan ráðningarsamning við starfsmann í síðasta lagi innan tveggja mánaða frá því starfsmaður var ráðinn.
Eyðublöð vegna ráðningasamninga á íslensku og ensku má nálgast á vef Vinnumálastofnunnar

Persónuafsláttur
Erlendir starfsmenn eiga rétt á persónuafslætti miðað við dvalartíma hér á landi. Sé starfsmaður að koma úr öðru starfi hér á landi getur hann nálgast upplýsingar um stöðu persónuafsláttar inn á þjónustusíðu RSK. Mikilvægt er að þeir sem starfa hér tímabundið skili inn skattframtali fyrir brottför. Á vef ríkisskattstjóra eru einfölduð skattframtöl á ensku, pólsku, rússnesku og spænsku.

Laun og önnur starfskjör
Íslenskir kjarasamningar, lög og reglur gilda jafnt fyrir erlenda starfsmenn sem aðra launamenn hér á landi. Nálgast má upplýsingar um gildandi kjarasamninga á vef ASÍ og á heimasíðum viðkomandi stéttarfélaga.

Starfsréttindi og starfsreynsla
Starfsréttindi og starfsreynsla sem aflað er á Evrópska efnahagssvæðinu teljast fullgild og ber að taka tillit til við launasetningu hér á landi.
Samkvæmt iðnaðarlögum nr. 42/1978 má enginn starfa við löggilta iðngrein hér á landi án þess að hafa fengið útgefið leyfi til þess. Erlendir starfsmenn sem ætla að starfa við löggilta iðngrein hér á landi skulu því afla sér staðfestingar á menntun og starfsréttindum sínum áður en þeir hefja störf hér á landi.

Viðurkenning á erlendri starfsmenntun
Umsóknir skal senda Iðunni vegna iðngreina fyrir utan rafiðngreinar en þær sér Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins um.
Þegar búið er að afgreiða umsóknirnar fara þær áfram til Menntamálastofnunnar sem gefur út viðurkenningu á erlendum
starfsréttindum. Landlæknir hefur umsjón með viðurkenningu starfa í heilbrigðisþjónustu og ENIC / NARIC skrifstofan vegna akademískra starfa.
Nánar: http://europass.is/vidurkenning-a-erlendri-starfsmenntun/

Vottorð um starfstímabil hér á landi
U1 vottorð um starfstímabil hér á landi er gefið út af Vinnumálastofnun. Vottorðið staðfestir aukin réttindi til atvinnuleysisbóta í heimalandi vegna starfa hér á landi. Skilyrði fyrir útgáfu vottorðsins er að tryggingagjald hafi verið greitt. Nálgast má vottorðið á vef Vinnumálastofnunar

Útsendir starfsmenn erlendra fyrirtækja / Starfsmannaleigur
Beint ráðningarsamband milli atvinnurekenda og launamanna er meginregla á íslenskum vinnumarkaði. Starfsmenn erlendra fyrirtækja eru skattskyldir hér á landi fyrir þau störf sem þeir inna af hendi hérlendis. Meginreglan er þessi nema til staðar sé samþykktundanþága frá Ríkisskattstjóra.

Þjónustufyrirtæki – útsendir starfsmenn
Erlendu fyrirtæki sem sendir hingað starfsmenn er skylt að skrá þá hjá Vinnumálastofnun ef þeir starfa hér á landi í 10 daga eða lengur. Senda skal starfsmannalista og ráðningarsamninga til Vinnumálastofnunar. Standi verkefnið yfir í 4 vikur eða lengur skal fyrirtækið hafa fulltrúa hér á landi. Vinna við sérhæfða samsetningu, uppsetningu, eftirlit eða viðgerðir í hámark 4 vikur er þó undanþegið skráningu.
Notendafyrirtæki ber að óska eftir skriflegri staðfestingu um að þjónustufyrirtækið hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni til Vinnumálastofnunar. Starfsmenn erlendra verktaka-/þjónustufyrirtækja skulu að lágmarki njóta launa og annarra starfskjara samkvæmt viðkomandi kjarasamningum (lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja... (nr. 45/2007)).

Starfsmannaleigur
Starfsmannaleigum bæði innlendum og erlendum ber að tilkynna Vinnumálastofnun um reksturinn frá fyrsta degi. Ætli starfsmannaleiga að veita þjónustu hér á landi lengur en 10 daga skal skila Vinnumálastofnun upplýsingum um starfsmenn og ráðningarsamninga. Einnig skal upplýsa um nafn og kennitölu notendafyrirtækis. Veiti starfsmannaleiga þjónustu hér landi lengur en 10 virka daga skal hún hafa fulltrúa hér á landi. Notendafyrirtæki ber að óska eftir skriflegri staðfestingu um að starfsmannaleigan hafi sinnt tilkynningarskyldu sinni til Vinnumálastofnunar.
Starfsmönnum starfsmannaleiga skulu að lágmarki tryggð sömu kjör og ef þeir hefðu verið ráðnir beint af notendafyrirtækinu (lög um starfsmannaleigur nr. 139/2005).
Einnig skulu þeir hafa sama aðgang að hvers konar aðbúnaði og sameiginlegri aðstöðu í notendafyrirtækinu. Ekki má heldur takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar til ráðningarsambands við það fyrirtæki. Nánar: https://www.vinnumalastofnun.is/atvinnurekandi/erlendthjonustufyrirtaeki-
og-starfsmannaleigur