Það sem skiptir öllu máli núna er heilsa fólks, að við náum tökum á veirunni og hún valdi ekki miklum skaða. Þar er starfsfólk í framlínunni sem oft og tíðum er ósýnilegt í okkar samfélagi en er núna orðið mikilvægasta fólkið fyrir líf okkar og heilsu. Það er of langt mál að telja upp starfsstéttirnar sem halda grunnstoðunum gangandi en þau eiga svo sannarlega skilið virðingu okkar og velvild. Þetta er ekki aðeins starfsfólk í heilbrigðisgeiranum eða velferðarkerfinu heldur líka starfsfólk sem tryggir hreinlæti í opinberum rýmum og fólk í verslunum sem sér til þess að við getum keypt í matinn. Förum að öllum reglum og verjum, eins og kostur er, það fólk á vinnumarkaði sem er útsett fyrir smiti.
Nú er verið að afgreiða á þinginu tvö lykilfrumvörp sem styðja við vinnandi fólk í skertri vinnu eða sóttkví. Niðurstaðan liggur ekki fyrir og við hefðum vissulega viljað sjá stuðninginn ganga lengra en það er óskandi að stuðningur við launagreiðslur komi í veg fyrir uppsagnir. Það eru háværar raddir um að keyra hlutina í gegn fljótt og örugglega og vissulega er það mikilvægt en það versta sem við gerum í þessari stöðu er að gefa afslátt af lýðræðinu, samtalinu og samráðinu. Ef við gerum það er voðinn vís og þeir sem mest völd hafa, til dæmis í skjóli fjármagns, ná undirtökunum.
Næst heilsu og lífi fólks skiptir mestu máli að við komumst út úr ástandinu vitandi að ákvarðanir hafa verið teknar með lýðræðislegum hætti fyrir almenning og fjöldann en ekki sérhagsmuni. Þannig verður samfélag okkar sterkara og grunnstoðirnar traustari.
Förum vel með okkur, hugum að eigin heilsu og annarra!
Drífa