Pistill forseta ASÍ - Milljarða jólagjöf til hinna ríkustu

Það er handagangur í öskjunni á Alþingi rétt fyrir jól og möguleikar almennings, til að greina ákvarðanir og veita aðhald, takamarkaðir. Nú stendur fyrir dyrum að létta skattbyrði á þeim allra ríkustu í samfélaginu með því að hækka frítekjumark fjármagnstekna úr 150 þúsund í 300 þúsund og láta það ná til arðgreiðslna og söluhagnaðs. Aðgerð sem kostar ríkissjóð um milljarð á ári á sama tíma og Landspítalinn þarf að hagræða um 4 milljarða. Þetta má setja í samhengi við baráttuna um að ná fram skattalækkunum á þá allra tekjulægstu í samfélaginu samhliða Lífskjarasamningum. Sú skattalækkun var knúin fram í krafti kjaraviðræðna og var hluti af kjarabótum almennings. Samningaviðræður áttu sér stað og Alþýðusambandið lagði fram gögn sem sýndu að skattbyrði hefði aukist á þá sem lægst hafa launin. Það þurfti mikið afl til að breyta skattkerfinu og það var gert til að auka jöfnuð.

Nú þegar ríkisstjórnin vill létta sköttum á þeim allra ríkustu og þar með veikja tekjustofna ríkisins er ekkert samráð og afar veikur rökstuðningur en jólagjöfin þeim mun veglegri. Í því sambandi má nefna að núverandi frítekjumark fjármagnstekna nýtist 90% framteljenda. Aðgerðin nýtist því 10% tekjuhæstu framteljendunum best. Horfið er af braut jöfnuðar og ekkert sem styður þennan gjörning á tímum þegar ríkissjóður hefur sannanlega ekki efni á að minnka tekjur sínar nema fyrir því séu afar góð rök. Nær væri að efla tekjuöflun ríkisins en með því að veikja tekjustofna sína er ríkið líka að rýra tekjur sveitarfélaga. Fleiri munu falla út af atvinnuleysisbótum og þurfa að treysta á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna auk þess sem þau hafa ríkar skyldur að halda uppi velferð á krepputímum. Á meðan þarf ríkasta fólk landsins, þau sem fá tekjur sínar af peningum og fjármálagjörningum, ekki að greiða útsvar til sveitarfélaga þótt þau nýti þjónustu þeirra á við alla aðra, hvort sem litið er til snjómoksturs eða leik- og grunnskóla.

Þessar áherslur stjórnvalda vekja ekki vonir um að við komumst út úr kreppunni með jafnara og sanngjarnara samfélag. Þvert á móti á að nýta ástandið til að lauma bitlingum til ríkasta fólksins, það er jólagjöfin í ár.

Góða helgi,
Drífa